Innlent

Sat slasaður í bílnum meðan vegfarendur keyrðu framhjá

Randver Kári Randversson skrifar
Ingi Ragnarsson slasaðist eftir útafakstur af veginum yfir Fagradal í gærmorgun.
Ingi Ragnarsson slasaðist eftir útafakstur af veginum yfir Fagradal í gærmorgun. Mynd/úr einkasafni.
Ingi Ragnarsson varð fyrir því óhappi að aka út af veginum yfir Fagradal í gærmorgun og dvelur nú á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað með brákaðan hryggjarlið. Um 20-30 bílar keyrðu framhjá á meðan hann beið eftir aðstoð.

Austurfrétt segir frá þessu.

Í samtali við Vísi sagði Ingi að sennilega hafi fólk ekki áttað sig á því að um slys hafi verið að ræða. Líklegra sé að vegfarendur hafi talið að hann hafi ekið viljandi út af veginum en hann var á stórum breyttum jeppa og bíllinn hafi ekki oltið. Hann hafi ekki verið auðsjáanlega slasaður og gat sjálfur hringt eftir aðstoð lögreglu.

„Þetta leit ekkert illa út, það var snjór þarna og ég var á breyttum jeppa, og bíllinn var utan vegar, nánast eins og honum hefði bara verið lagt þarna. Maður skilur því alveg að fólk hafi ekki haft miklar áhyggjur af þessu. Eflaust hefði maður keyrt framhjá þessu sjálfur líka.“  

Ingi vill brýna fyrir fólki að spá betur í það hvort eitthvað sé að þegar það sér kyrrstæðan bíl út í vegarkanti. „Það getur alltaf verið eitthvað alvarlegt að ef bíll er kyrrstæður út í kanti, jafnvel hjartaáfall eða eitthvað slíkt.“ Hann á von á því að verða útskrifaður af Fjórðungssjúkrahúsinu fljótlega, jafnvel á morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×