Íslenski boltinn

Hjörtur aftur til ÍA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, ásamt Hirti.
Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, ásamt Hirti. Mynd/Heimasíða KFÍA
Hjörtur Hjartarson er genginn til liðs við ÍA á nýjan leik en félagið tilkynnti það í dag.

Fram kemur að Hjörtur, sem verður fertugur í haust, verði fyrst og fremst í því hlutverki að styðja við þá framherja sem fyrir eru hjá ÍA.

„Vonir standa til að þeir muni geta nýtt sér þá miklu reynslu og þekkingu sem Hjörtur hefur á leiknum,“ segir í frétt á heimasíðu ÍA.

Hjörtur, sem er uppalinn Skagamaður, varð Íslandsmeistari með ÍA árið 2001 og markahæsti leikmaður mótsins það ári. Hann var síðast á mála hjá Víkingi en hefur einnig leikið með Þrótti og Skallagrími.

Hann á að baki 332 deildarleiki á Íslandi og er tíundi leikjahæsti leikmaður landsins frá upphafi. Hann er sá sjötti markahæsti með 166 mörk.

ÍA féll úr Pepsi-deild karla í haust og eftir tímabilið var annar heimamaður og fyrrum liðsfélagi Hjartar hjá ÍA, Gunnlaugur Jónsson, ráðinn þjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×