Lífið

Þarf að hafa meira fyrir strákunum

Ugla Egilsdottir skrifar
Gríma Kristinsdóttir hársnyrtikona ætlar meðal annars að snyrta skegg á sunnudaginn.
Gríma Kristinsdóttir hársnyrtikona ætlar meðal annars að snyrta skegg á sunnudaginn. fréttablaðið/stefán
„Þessi dagur verður meira helgaður hári karla en kvenna,“ segir Gríma Kristinsdóttir, einn hárskeranna sem verða með sýnikennslu næsta sunnudag í tilefni af 90 ára afmæli Meistarafélags hárskera. „Þeir eru farnir að spá meira í þetta strákarnir,“ segir Gríma. „Það er miklu meiri tíska og tækni komin inn í karlahártísku. Einu sinni létu strákar duga að segja: „Já, minnkaðu á mér hárið.“ Það eru ekki mjög krefjandi fyrirmæli fyrir hárgreiðslumeistara. Núna vilja strákar fá eitthvað smartara. Það þarf að hafa fyrir þeim og það er bara af hinu góða. Það skilar sér í meiri fagmennsku,“ segir Gríma.

„Ég fór alveg á sér námskeið í herraklippingu til Danmerkur í fyrra,“ segir Gríma. „Hárið á körlum er klippt öðruvísi en hárið á konum. Það eru harðari línur hjá þeim, en mýkri línur hjá konum.“ Gríma klippir bæði karla og konur, en er líka menntuð í rakaraiðn. „Ég fór að læra rakstur 1978 eða 1979. Þá var byrjað að opnast meira fyrir það að konur lærðu rakaraiðn. Áður var þetta meira karlafag. Í kringum 1980 fór ég að vinna á stofu sem heitir Figaro. Þar var boðið upp á klippingu og rakstur fyrir bæði kynin, en það var nýbreytni á þessum tíma. Ég byrjaði þar um það leyti sem ég útskrifaðist úr hárgreiðslunámi í Ósló,“ segir Gríma.

Meistarafélags hárskera hét upphaflega Rakarameistarafjelag Reykjavíkur, og var stofnað í Eimskipafélagshúsinu árið 1924. Konur stofna hárgreiðslufélag í kringum 1931, en það rennur síðar saman við Meistarafélag hárskera. Hárgreiðslusýning í tilefni af afmæli félagsins verður á sunnudag. Þar verður sýnikennsla í rakstri, skeggsnyrtingu, herraklippingum auk þess sem boðið verður upp á danssýningu. Hárskerarnir sem taka þátt verða Gríma Kristinsdóttir, Bryndís Guðjónsdóttir, Andri Kristleifsson, Jón Halldór Guðmundsson, Guðjón Þór Guðjónsson og Torfi Geirmundsson. Einnig koma fram nemar úr hársnyrtideildum skólanna. Dagskráin verður frá 14 til 18 og fer fram á Kaffihúsinu í Víkinni, Sjóminjasafninu, Grandagarði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.