Innlent

Mynda mistökin í fimleikum

Freyr Bjarnason skrifar
Axel Ólafur Þórhannesson notast við nýjustu myndavélatækni við þjálfun sína.
Axel Ólafur Þórhannesson notast við nýjustu myndavélatækni við þjálfun sína. Fréttablaðið/Vilhelm
 „Fimleikar eru ofsalega tæknilegir og smáatriðin skipta mjög miklu máli,“ segir Axel Ólafur Þórhannesson, fimleikaþjálfari hjá Gerplu.

Axel Ólafur, rétt eins og margir aðrir fimleikaþjálfarar, notast við nýjustu myndavélatækni í starfi sínu. Um er að ræða forrit fyrir spjaldtölvur þar sem þjálfarar og iðkendur geta séð hvað þarf að laga eftir hverja æfingu. „Það tekur oft mörg ár fyrir þjálfara að ná þeirri tækni að geta séð öll þessi smáatriði.“

Aðspurður segir Axel Ólafur að tæknin hafi nýst mjög vel síðan Gerpla tók hana fyrst í notkun fyrir um þremur árum. „Þetta setur nýjan standard í kennslunni og hjálpar okkur gríðarlega að bæta okkur. Það er gott fyrir strákana og stelpurnar að sjá nákvæmlega hvað þau eru að gera vitlaust,“ segir hann en einnig er hægt að merkja inn í forritin hvernig þjálfarnir vilja að iðkendurnir standi.

„Við höfum ekki mælt framfarirnar sérstaklega en ég vil meina að þetta hjálpi krökkunum gríðarlega við að átta sig á því hvað þarf að gera. Munnleg fyrirmæli eru heldur ekki jafn sterk og þessi sjónrænu.“

Forritin, sem heita Coach's Eye og Ubersense, voru upphaflega hönnuð fyrir kylfinga til að skoða hvernig sveifla þeirra er að þróast og í framhaldinu var farið að nota þau í öðrum íþróttum.

Þjálfarar fimleikalandsliða Íslands hafa notast við þessa nýjustu tækni með góðum árangri. Evrópumótið í áhaldafimleikum verður haldið í Sofíu í Búlgaríu eftir nokkrar vikur. Þar verður hún notuð við undirbúninginn og einnig fyrir Evrópumótið í hópfimleikum sem verður haldið hér á landi í haust í fyrsta sinn.

Sjálfur notar Axel Ólafur forritin í fjórum áhöldum af þeim sex sem hann kennir. Um jólin hlaut hann viðurkenningu frá Ubersense fyrir að vera á meðal þeirra tíu prósenta í heiminum sem nota það forrit mest. „Það var mjög gaman. Það segir manni líka hvað maður er mikið nörd.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×