Lífið

Tekur partíið á annað stig og gengur á vatni

Gunnar Leó Pálsson skrifar
mikið stuð Dj Margeir planar nú mikla útgáfugleði í Bláa lóninu í tilefni útgáfu plötunnar á heimsvísu.mynd/lilja birgisdóttir
mikið stuð Dj Margeir planar nú mikla útgáfugleði í Bláa lóninu í tilefni útgáfu plötunnar á heimsvísu.mynd/lilja birgisdóttir
„Platan var að koma í sölu og nú er skipulagning útgáfutónleikanna í Bláa lóninu í fullum gangi,“ segir Dj Margeir en þriðja platan í Bláalónssyrpunni hans, Blue Lagoon Soundtrack 3 er þó sú fyrsta sem kemur út á heimsvísu. Um er að ræða plötur þar sem Margeir velur lög úr öllum áttum, sem hann telur henta andrúmsloftinu og orkunni sem fyrirfinnst í Bláa Lóninu. Fyrri tvær plöturnar eru nú ófáanlegar en sú fyrsta fór í gullsölu.

„Ég hef alltaf verið tengdur Bláa lóninu. Afi, sem þjáðist af psoriasis, tók mig reglulega með sér þegar ég var mjög lítill gutti og lónið var nánast ósnert og hrátt. Þá áttaði ég mig á því að það gæti verið magnað að tengja saman þetta ótrúlega fyrirbæri við tónlist. Samspil náttúru, orku og krafts sköpunar,“ útskýrir Margeir.

Hann ætlar að fagna plötunni með veglegum gleðskap í lóninu á Jónsmessunótt. „Við erum að reyna að skapa eitthvað nýtt og spennandi, sviðið mun ná út í lónið, þannig að listamennirnir geta nánast gengið á vatni, en það ætti að henta Högna sérstaklega vel, en hann er að púlla lúkk frelsarans með stæl. Sannkallaður draumur á Jónsmessunótt,“ segir Margeir léttur í lundu.

Á meðal þeirra listamanna sem koma fram með Margeiri eru til dæmis sveitir eins og President Bongo, Gluteus Maximus ásamt áðurnefndum Högna Egilssyni og Daníel Ágúst svo einhverjir séu nefndir. Platan er komin í sölu og miðasala á tónleikana er hafin á midi.is.

„Miðað við öll þau partí sem ég hef spilað á í lóninu, á ég von á einstakri stemningu.“ Hann stefnir á frekara tónleikahald hér heima og erlendis í kjölfar plötunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.