Lífið

Útidúr herja á Þýskaland

Baldvin Þormóðsson skrifar
Útidúr halda nú í sitt sjöunda tónleikaferðalag.
Útidúr halda nú í sitt sjöunda tónleikaferðalag. mynd/útidúr
Kammerpoppsveitin Útidúr lagði af stað í tónleikaferð um Þýskalands í gær þar sem sveitin mun spila á átta tónleikum á tíu dögum.

Ferðalagið skipuleggur bókunarskrifstofa sveitarinnar Prime Tours en á mála hjá þeim eru meðal annars malíski dúettinn Amadou & Miriam sem komu fram á Listahátíð í Reykjavík árið 2010.

Þetta er fimmti túr Útidúr um Þýskaland en í sjöunda sinn sem sveitin stekkur út fyrir landsteinanna. Ferðalagið samanstendur af fjórum skemmtistaðatónleikum og fjórum tónlistarhátíðum meðal annars í Stuttgart, Nuremberg og Hamburg.

Í tilefni ferðalagsins gáfu Útidúr út lagið Þín augu mig dreymir sem er fyrsta smáskífan af nýrri breiðskífu sem væntanleg er í haust.

Lagið er hádramatískur óður til indverskrar kvikmyndatónlistar sem kennd er við Bollywood, segir Kristinn Roach Gunnarsson, meðlimur Útidúrs en það mætti segja að útgáfa lagsins sé langþráð því lagið hefur verið mótað og þróað á tónleikum Útidúrs í yfir þrjú ár.

Á væntanlegri breiðskífu, sem er sú þriðja frá Útidýr, rær sveitin á dýpri mið en áður í þroskuðum lagasmíðum undir áhrifum frá spaghettívestratónlist Ennio Morricone, kvikmyndatónlist Nino Rota, evrópsku gullaldarpoppi og klassískri íslenskri dægurtónlist.

Nýja lagið má hlýða á hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.