Lífið

Ekkert lögbann á Vonarstræti

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Vonarstræti hefur verið hótað lögbanni. Talið er að aðilinn, sem hótaði lögbanninu sjái sjálfan sig í ákveðinni persónu í myndinni.
Vonarstræti hefur verið hótað lögbanni. Talið er að aðilinn, sem hótaði lögbanninu sjái sjálfan sig í ákveðinni persónu í myndinni. mynd/einkasafn
„Ef menn reyna að fá lögbann, þá þurfa þeir að reiða fram talsvert fé. Við höfum allavega ekki heyrt meira en þetta eina símtal frá aðilanum,“ segir Ingvar H. Þórðarson, einn af framleiðendum myndarinnar Vonarstrætis. Segir hann að aðili hafi hringt í sig og hótað lögbanni á myndina en vill þó ekki nafngreina hann.

Vonarstræti fjallar að hluta til um glamúrlíf svokallaðra útrásarvíkinga árið 2007. Talið er að ein persónan í myndinni hafi farið fyrir brjóstið á þeim aðila sem hótaði kæru fyrir ærumeiðingar og lögbanni á myndina. Á þá sú persóna að hafa verið iðin við að skaffa fíkniefni og vændiskonur í gleðskap sem fram fór um borð í glæsilegri snekkju.

„Myndin er ekki að taka á neinum sérstökum einstaklingum á þessum góðæristímum en það var ýmislegt í gangi á þessum tíma,“ segir Ingvar og bætir við: „Það getur verið að margir kannist við sjálfan sig þarna og vorum við beðnir um að klippa ákveðin atriði úr myndinni.“

Hótanirnar hafa þó eins og er engin áhrif á gang mála og verður myndin frumsýnd þann 16. maí næstkomandi. „Maður veit svo sem aldrei hvað gerist en myndin er á áætlun sem stendur,“ bætir Ingvar við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.