Innlent

Ekki vitað hvaðan morðvopnið er fengið

Snærós Sindradóttir skrifar
Friðrik Brynjar Friðriksson við komuna í Héraðsdóm í morgun
Friðrik Brynjar Friðriksson við komuna í Héraðsdóm í morgun VÍSIR/Villi
Dómkvaddur matsmaður við Egilsstaðamorðmálið svokallaða segir að það eina sem benti til þess að átök hefðu verið í íbúðinni þegar Karl Jónsson var drepinn væru bjórdósir sem fallið höfðu um koll og brotinn hnífur sem lá á gólfinu.

Friðrik Brynjar Friðriksson var dæmdur í Héraðsdómi Austurlands fyrir að myrða Karl í byrjun maí árið 2013. Hann kom í fylgd fangaflutningamanna í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun þar sem vitnaleiðslur fara fram yfir matsmönnum sem hafa lagt endurskoðað mat yfir rannsóknargögn málsins. 

Matsmennirnir Jóhann Eyvindsson og Gillian Leak segja það erfitt að áætla í hvaða stellingu morðið var framið. Karl var stunginn til bana.

„Það er hæpið að standa uppréttur og veita mörg kröftug högg. Hann [morðinginn] var að minnsta kosti ekki standandi. Okkur finnst líklegt að annað hnéð hafi verið niðri,“ sagði Jóhann.

Matsmenn gátu ekki sagt til um hvaðan hnífurinn sem notaður var til að deyða Karl hafi komið. Þeir vildu ekki fullyrða um það hvort maðurinn hefði komið með hnífinn með sér eða tekið hann úr eldhúsinnréttingu í íbúðinni.

Það er álit matsmanna að ljósmyndir við rannsókn málsins hafi ekki verið með fullnægjandi hætti. Blóðfar á svalahandriði íbúðarinnar var til að mynda ekki ljósmyndað frá öllum sjónarhornum auk þess sem einhverjar myndir voru beinlínis ónothæfar vegan óskýrleika þeirra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.