Innlent

Segir líkur á að börnin séu á Íslandi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Alþjóðalögreglan Interpol lýsir eftir tveimur íslenskum börnum á vefsíðu sinni. Faðir barnanna segir íslenska móður þeirra hafa numið þau á brott í maí á síðasta ári og segir líkur á að þau gætu verið á Íslandi.

Börnin heita Michaela Angela Goransdóttir og Alexander Oliver Goransson. Þau eru tíu og tólf ára gömul. Móðurafi - og amma barnanna eru íslensk og móðir þeirra, Gína Júlía Waltersdóttir er fædd á Íslandi en hefur búið í Svíþjóð ásamt fjölskyldu sinni frá árinu 1983.

Faðir barnanna er Goran Grcic. Foreldrarnir skildu fyrir fimm árum og hafa staðið í hatrammri forræðisdeilu síðan. Öll voru þau búsett í Nacka, úthverfi Stokkhólms, þar sem börnin gengu í skóla.

Móðir barnanna fer með fullt forræði yfir þeim en faðirinn er með umgengnisrétt. Faðirinn segist ekki hafa séð börnin í marga mánuði og fullyrðir að móðir þeirra hafi numið þau á brott.

Goran segir sænsku lögregluna hafa rannsakað málið síðan í maí, eða frá því að börnin hættu að mæta í skólann. Málið rataði svo inn á borð alþjóðalögreglunnar Interpol í desember þegar móðuramma barnanna greindi félagsmálayfirvöldum frá því að móðir þeirra hefði farið með þau úr landi. Hann telur líkur á að börnin séu á Íslandi.

Ekki fékkst staðfest hvort málið sé komið inn á borð íslensku lögreglunnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×