Lífið

Hittu hinn eina sanna Hasselhoff

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Ari Bragi, Hasselhoff og Steinar Saxenegger njóta lífsins í Barcelona.
Ari Bragi, Hasselhoff og Steinar Saxenegger njóta lífsins í Barcelona. Mynd/Einkasafn
„Við vorum bara í góðum fíling á rosa fínu hóteli þegar að við rákum augun í hinn eina sanna Hasselhoff og það kom auðvitað ekkert annað til greina en að fá mynd með meistaranum,“ segir Steinar Sigurðarson, betur þekktur sem Saxenegger, en hann og Ari Bragi Kárason birtu mynd af sér með hinum eina sanna David Hasselhoff á facebook fyrir skömmu.

Steinar og Ari Bragi, sem staddir eru í Barcelona þessa dagana, eru báðir þekktir blásturshljóðfæraleikarar. Steinar leikur á saxófón og Ari Bragi á trompet og leika þeir báðir með hinum ýmsum hljómsveitum.

Myndin hefur að sjálfsögðu fengið talsverða athygli, enda Hasselhoff mikil goðsögn og átrúnaðargoð margra. „Hann var mjög kurteis og fínn náungi, hann er líka í mjög góðu formi kallinn,“ bætir Steinar við.

Hann og Ari Bragi eru miklir íþróttamenn fyrir utan tónlistarlífið og er Ari Bragi til dæmis Íslandsmeistari í ólympískum lyftingum, tvöfaldur Íslandsmeistari í róðri, æfir Crossfit og æfi nú einnig spretthlaup. Steinar Saxenegger er einkaþjálfari og er einnig margfaldur meistari í hinum ýmsu mótum þrekmótaraðarinnar. Hann hefur einnig sett mörg met í innanhús róðri, og sigraði parakeppni í Boot Camp fyrir skömmu. „Við æfum daglega hérna, það hefði samt verið gaman að rífa aðeins í lóðin með kallinum en það gafst ekki tími í slíkt.“

Hann segir þó að þeir hafi lítið náð að spjalla saman enda Hasselhoff umsetin stjarna. „Það hefði verið gaman að ræða aðeins við hann en við rekumst kannski á hann síðar í ferðinni okkar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.