Innlent

Átta eldsvoðar við Hafravatn síðan 2009

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fyrr á þessu ári brann bústaður við Hafravatn.
Fyrr á þessu ári brann bústaður við Hafravatn.
„Við erum að rannsaka þessi mál í samhengi,“ segir Einar Ásbjörnsson, rannsóknarlögreglumaður.

Töluvert hefur borið á því að eldur komi upp í sumarhúsum við Hafravatn á síðustu árum. Nú síðast á miðvikudagskvöld þegar Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um alelda sumarhús. Ekki er vitað hvað olli eldsvoðanum en sumarhúsið ku vera er gjörónýtt.

„Við erum opnir fyrir öllu og sláum engu föstu varðandi þessa bruna. Okkur finnst tíðni þessara eldsvoða geta gefið til kynna að um íkveikjur sé að ræða.“

Einar segir að alls hafi komið upp átta tilfelli um eld í sumarhúsum við Hafravatn frá árinu 2009.

„Húsin eru oftast mannlaus þegar eldur kemur upp og því enginn rafmagnsnotkun í þeim. Einhvern veginn kviknar í og við erum bara að skoða þessi mál.“

Ekkert rafmagn er til að mynda í bústaðnum sem brann til kaldra kola í síðustu viku. Þegar slökkviliðið kom á vettvang skíðlogaði bústaðurinn og var ákveðið í samráði við lögreglu að láta hann brenna. Slökkviliðið aftraði því að eldurinn næði í nærliggjandi gróður.

Einar segir að lögreglan hafi byrjað að setja þetta í samhengi árið 2012.

„Við skoðum alltaf hvert mál útaf fyrir sig en frá árinu 2012 fórum við að vera opnir fyrir því að þessi mál gætu tengst.“


Tengdar fréttir

Myndband af brunanum við Hafravatn

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu barðist í morgun við eld í sumarbústað við Elliðakotsafleggjara rétt austan við Gunnarshólma við Suðurlandsveg.

Sumarbústaður brennur við Hafravatn

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu barðist í morgun við eld í sumarbústað við Elliðakotsafleggjara rétt austan við Gunnarshólma við Suðurlandsveg. Tilkynning barst um eldinn á sjöunda tímanum og logaði glatt í bústaðnum þegar liðið kom á vettvang, en talið er að engin hafi verið í bústaðnum. Eldurinn var það mikill að ekki var hægt að senda reykkafara inn í bústaðinn. Ákveðið var fyrir stundu að láta bústaðinn brenna til kaldra kola en verja umhverfið, því hann er hvort eð er ónýtur. Staðin verður vakt á staðnum og síðan drepið í glæðum. Eldsupptök eru ókunn.

Eldur í sumarbústað við Hafravatn

Eldur kviknaði í um fjörutíu fermetra sumarbústað á milli Úlfarsfells og Hafravatns á tíunda tímanum. Tvær stöðvar fóru á staðinn og eru enn að. Nokkur eldur var í bústaðnum sem er sennilega töluvert skemmdur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×