Innlent

Mikið magn kannabisefna fannst í Hafnarfirði og Garðabæ

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
vísir/gva
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt hald á talsvert af kannabisefnum í Hafnarfirði og Garðabæ eftir nokkrar húsleitir undanfarna daga. Á einum stað var að finna tvö kíló af marijúana og segir lögreglan á Facebook-síðu sinni að fíkniefnin hafi verið tilbúin til sölu.

Á öðrum stað var lagt hald á hálft kíló af marijúana og á þeim þriðja fundust þrjátíu stórar kannabisplöntur. Í þessum aðgerðum hefur einnig verið lagt hald á amfetamín, MDMA og e-töflur.

Í nær öllum málanna hafa komið við sögu karlmenn á aldrinum 18 til 30 ára. Ein kona á þrítugsaldri var einnig handtekin og viðurkenndi hún sölu fíkniefna, en á heimili hennar var lagt hald á marijúana.

Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjunum í dag og staðfestu sýnatökur að báðir hefðu þeir neytt kannabisefna. Þá var þriðji ökumaðurinn stöðvaður um helgina en hann hafði einnig neytt kannabisefna og geymdi að auki allnokkuð af kannabisefnum á heimili sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×