Körfubolti

Martin enn ískaldur og LIU Brooklyn tapaði fjórða leiknum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson í leik með LIU Brooklyn.
Martin Hermannsson í leik með LIU Brooklyn. Vísir/Getty
LIU Brooklyn, lið þeirra Elvars Más Friðrikssonar og Martins Hermannssonar, er enn án sigurs í bandaríska háskólaboltanum en liðið tapaði með  14 stigum á móti Temple í gær, 54-70. LIU Brooklyn hefur þar með tapaði fjórum fyrstu leikjum sínum með Elvar og Martin innanborðs.

Elvar Már Friðriksson hefur fundið sig mun betur í upphafi tímabilsins en hann var með 8 stig og 8 stoðsendingar á 33 mínútum í gær þar af var Njarðvíkingurinn með 6 stig og 6 stoðsendingar í fyrri hálfleiknum sem LIU Brooklyn vann 34-27.

Leikur LIU Brooklyn hrundi hinsvegar í seinni hálfleiknum sem Temple-liðið vann með 21 stigi, 43-22.

Martin Hermannsson var með 4 stig og 2 stoðsendingar á 20 mínútum en hann hitti aðeins úr 1 af 8 skotum sínum og tvö af fjögur stigum hans komu af vítalínunni.

Þetta hefur verið afar erfið byrjun á tímabilinu fyrir Martin sem hefur klikkað á tíu fyrstu þriggja stiga skotum sínum í háskólaboltanum.  KR-ingurinn er aðeins með 23 prósent skotnýtingu (7 af 31) í fyrstu fjórum leikjum sínum með LIU Brooklyn.

Elvar Már er stoðsendingahæstur í liðinu í fyrstu fjórum leikjunum með 5,0 slíkar að meðaltali í leik auk þess að skora 8 stig að meðaltali. Martin er með 5 stig og 3,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×