Innlent

Nemendur í verknámi upplifa mikið álag, manneklu og lélega aðstöðu á Landspítalanum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sviðsráð heilbrigðisvísindasviðs hefur sent heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra opið bréf þar sem sláandi niðurstöður könnunarinnar eru kynntar.
Sviðsráð heilbrigðisvísindasviðs hefur sent heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra opið bréf þar sem sláandi niðurstöður könnunarinnar eru kynntar.
Meirihluti nemenda við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, eða 52%, íhugar að flytja erlendis að námi loknu og einungis 7% nemenda hafa jákvætt viðhorf til heilbrigðismála á Íslandi.

Þetta sýna niðurstöður könnunar sem sviðsráð Stúdentaráðs Háskóla Íslands á heilbrigðisvísindasviði gerði á meðal nemenda á tveimur síðustu árum í læknis-, hjúkrunar-, lyfja-, lífeinda- og geislafræði, sem og sjúkraþjálfun. Stór hluti nemendanna hefur eða mun starfa Landspítalanum.

Margrét Unnarsdóttir, formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs, segir niðurstöðurnar sláandi.

„Við gerðum í fyrsta skipti svona könnun í fyrra í ljósi neikvæðrar umræðu í samfélaginu og vegna erfiðra aðstæðna á Landspítalanum. Nemendur í verknámi höfðu ekki farið varhluta af ástandinu og við vildum tékka hvernig staðan væri. Við vildum því kanna núna hvort eitthvað hefði breyst þar sem niðurstöður könnunarinnar voru sjokkerandi og vöktu þar af leiðandi mikla athygli.“

Margrét segir könnunina í ár sýna að lítið hafi breyst.

„Nemendur í verknámi inni á Landspítalanum upplifa það að starfsmenn eru ekki ánægðir og samsvara sér auðvitað með þeim,“ segir Margrét.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að aðeins 22% nemenda upplifi að klíniskir kennarar inni á spítalanum hafi nægan tíma til að sinna klíniskri kennslu í verknámi. Það sé mikið álag, mikil mannekla og léleg aðstaða.

Aðspurð um yfirvofandi verkfall lækna og umræðuna í kringum það segir Margrét það vissulega hafa áhrif á niðurstöður könnunarinnar. Nemendur standa þó heilshugar með kjarabaráttu lækna enda skipti hún þá mjög miklu máli sem framtíðarstarfsmenn heilbrigðiskerfisins.

Margrét Unnarsdóttir, formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs.
Neikvætt viðhorf til heilbrigðismála samfélagslegt vandamál

„Það er ekki aðeins þannig að 7% nemenda hafi jákvætt viðhorf til heilbrigðismála á Íslandi heldur eru aðeins 18% sem segjast vera bjartsýn á framtíð heilbrigðiskerfisins. Við viljum benda á að neikvætt viðhorf til heilbrigðismála á Íslandi almennt er stórt samfélagslegt vandamál. Það er svo margt sem á eftir að útkljá og það þarf nauðsynlega að bregðast við,“ segir Margrét.

Í könnuninni voru nemendur ekki sérstaklega spurðir um hvað þyrfti að gera en Margrét segir það nokkuð ljóst að bæta þurfi kjörin sem og aðstöðu sjúklinga og starfsmanna.

„Það er númer 1, 2 og 3 að bæta kjörin. Kjörin í löndunum sem við berum okkur saman við eru einfaldlega betri og fólk veit það, það hefur þennan samanburð.“

Sviðsráð heilbrigðisvísindasviðs hefur sent heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra opið bréf þar sem niðurstöður könnunarinnar eru kynntar en bréfið endar á þessum orðum:

„Heilbrigðisstarfsfólk framtíðarinnar hefur enn mjög neikvætt viðhorf til heilbrigðismála og sættir sig ekki við að starfa við þær bágu aðstæður og kjör sem Landspítalinn hefur upp á að bjóða.

Grafalvarleg staða heilbrigðiskerfisins þolir enga bið og er bráðra aðgerða þörf ef halda á í núverandi og framtíðar starfsfólk Landspítalans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×