Innlent

Íslenskur hundur sækir bjór og slær í gegn á netinu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sandra Sjöfn á þrjá hunda og einn þeirra kann að sækja bjór inn í ísskáp.
Sandra Sjöfn á þrjá hunda og einn þeirra kann að sækja bjór inn í ísskáp.
„Þetta er rosalega skemmtilegt,“ segir Sandra Sjöfn Helgadóttir, hundaþjálfari og sem setti myndband á netið með hundinum sínum, sem er kallaður Atlas. Á myndbandinu sést hann sækja bjór inn í ískáp og kann hann greinilega að opna og loka ískápnum. Myndbandið hefur nú ratað í erlenda fjölmiðla og birtist í dag á vefútgáfu breska blaðsins Telegraph.

„Ég er mjög ánægð hvernig þetta fór,“ segir Sandra. Hún sendi myndbandið inn í hundakeppni á netinu og þaðan rataði það eftir ýmsum krókaleiðum á vefmiðilinn Newsflare og þaðan hefur það haldið áfram för sinni um netheima.

Tók ekki langan tíma

„Það tók ekki langan tíma að kenna honum þetta,“ segir Sandra Sjöfn og heldur áfram: „Þetta eru í raun fjórar æfingar saman í einni. Hann kunni að sækja og skila, þannig að ég þurfti að kenna honum að opna og loka ískápnum.“

Sandra Sjöfn segir Atlas ekki enn kunna að greina á milli þess sem hann sækir í ískápinn. „Nei, ég er að reyna að kenna honum að aðgreina til dæmis djús og bjór. Þetta er allt í vinnslu.“

Sandra er menntaður hundaþjálfari og er að læra hundaatferlisfræði. Hún á þrjá hunda en segir Atlas vera námsfúsastan. „Já, hann er meðfærilegastur af þeim.“ Atlas er blanda af Border collie tegund og íslenskum fjárhundi.

Hér að neðan má sjá myndbandið




Fleiri fréttir

Sjá meira


×