Erlent

Talíbanar limlestu ellefu manns sem kusu

Samúel Karl Ólason skrifar
Þeir íbúar sem kusu þurftu að dýfa vísifingri í blek, svo ekki væri hægt að kjósa aftur.
Þeir íbúar sem kusu þurftu að dýfa vísifingri í blek, svo ekki væri hægt að kjósa aftur. Vísir/AFP
Talíbanar skáru vísifingurinn af ellefu manneskjum í Afganistan sem tóku þátt í forsetakosningunum þar í landi, sem fram fóru um helgina. Samkvæmt lögreglu var verið að refsa fólkinu fyrir að kjósa, en Talíbanar höfðu varað fólk við því.

Kosningarnar eru sagðar hafa gengið nokkuð friðsamlega þrátt fyrir að yfir 50 manns hafi fallið í árásum Talíbana. Þar af létust fimm starfsmenn kosninganna þegar bíll þeirra var sprengdur í loft upp.

Tveir menn eru í framboði og hafa báðir þeirra lofað að styrkja tengsl landsins við hinn vestræna heim. Sem og að skrifa undir samning sem gerir Bandaríkjunum kleyft að hafa tíu þúsund hermenn í landinu til tveggja ára.

Samkvæmt BBC er talning atkvæða hafin, en fjölmörg kosningasvindl eru í rannsókn. Fyrstu tölur gefa í skyn að yfir sjö milljónir Afgana hafi tekið þátt, sem samsvarar um 60% kjörsókn.

Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í Afganistan hefur fordæmt limlestinguna. „Eins og milljónir landsmanna nýtti þetta venjulega fólk grunnrétt sinn til að móta framtíðarstefnu landsins með því að kjósa en ekki í gegnum ofbeldi og ógnanir.“

„Með atkvæði þeirra, hafa þau þegar sigrað þá sem ýta undir ótta og ofbeldi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×