Innlent

„Tímaspursmál hvenær alvarlegra slys á sér stað“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Þessir bílstjórar fara þá í gegn um hverfið um Hamrahlíð og Lönguhlíð sem er einstaklega slæmt þar sem að þetta eru akkúrat þær götur sem börn fara mikið yfir á leið úr og í skóla.“
„Þessir bílstjórar fara þá í gegn um hverfið um Hamrahlíð og Lönguhlíð sem er einstaklega slæmt þar sem að þetta eru akkúrat þær götur sem börn fara mikið yfir á leið úr og í skóla.“
„Því miður get ég ekki sagt að þetta slys komi mér mikið á óvart. Umferðarhraðinn í Lönguhlíð er allt of mikill og ef ekkert verður að gert er því miður aðeins tímaspursmál um hvenær alvarlegra slys á sér stað.“ Þetta segir Friðrik Hjörleifsson, fulltrúi foreldra í skólaráði Hlíðaskóla, í ljósi slyss sem átti sér stað í Lönguhlíð í gær, þar sem ekið var á unglingspilt á hjóli. Hann segir slysið því miður ekki einsdæmi og því séu foreldrar barna í Hlíðaskóla áhyggjufullir.

Friðrik segir umferðarslys tíð á þessu svæði en samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og skipulagssviði eru einungis 25 prósent þeirra sem aka um svæðið á löglegum hraða.

Allar götur í Hlíðahverfi eru með þrjátíu kílómetra hámarkshraða nema Langahlíð þar sem hámarkshraðinn er fimmtíu kílómetrar.

„Hverfið virðist því miður oft vera notað af bílstjórum til að stytta sér leið og ef til vill að sleppa við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar,“ segir Friðrik sem segir það afskaplega slæmt því þetta eru þær götur sem börn fara mikið yfir á leið í og úr skóla.

Hann segir að ýmislegt megi bæta í hönnun þessara gatna, en báðar séu þær of greiðfærar. Hann hefur stungið upp á að hámarkshraðinn verði lækkaður í þrjátíu kílómetra en þó sé hann ekki viss um að ökumenn myndu fylgja því.

„Ég hef haft samband við lögregluna og óskað eftir tíðari hraðamælingum í Hamrahlíðinni, þeir hafa orðið við því í nokkur skipti en hafa einnig bent á að aukið eftirlit muni ekki laga ástandið í Hlíðunum, til þess þurfi breytingar á götunum vegna þess hversu greiðfærar og breiðar þær eru.“

Þar sem aukið hraðaeftirlit hefur ekki borið árangur var Friðriki bent á að hafa samband við Reykjavíkurborg og málið á þeirra borði í dag.

„Við erum bara virkilega áhyggjufull,“ segir Friðrik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×