Verk eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur með þátttöku listflugmannanna Sigurðar Ásgeirssonar, Björns Thors og Kristjáns Þórs Kristjánssonar og kórsins Kötlu, var flutt seinnipartinn í dag yfir Kollafirði en um var að ræða lokaverk Listahátíðar 2014.
Tvær listflugvélar sem Björn Thors og Kristján Þór Kristjánsson flugu, teiknuðu form í háloftinu sem kórinn Katla túlkaði í söng en honum var útvarpað í þættinum Víðsjá á meðan á fluginu stóð.
Annar flugmannanna, Björn Thors, er jafnframt sjálflærður flugvélasmiður og smíðaði vélina sem hann flýgur í verkinu en hún er nú í eigu Sigurðar Ásgeirssonar.
Verkið stóð yfir í um átta mínútur en listflug krefst sérstakra veðurskilyrða. Egill Aðalsteinsson, myndatökumaður Stöðvar 2, tók þessar frábæru myndir í dag.
