Lífið

85 ár frá fyrstu Óskarsverðlaunaafhendingunni

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Á þessum degi árið 1929 voru fyrstu Óskarsverðlaunin afhent á Hollywood Roosevelt-hótelinu í Los Angeles. Alls sóttu 270 manns hátíðina og var eftirpartíið haldið á Mayfair-hótelinu. Miðinn á hátíðina kostaði þá fimm Bandaríkjadali, sem eru 69 dalir að núvirði, rúmlega átta þúsund krónur.

Alls voru fimmtán styttur, eða Óskarar, veittir það kvöld og var athöfnin fimmtán mínútna löng. Fyrsti maðurinn til að hljóta verðlaunin fyrir bestan leik var Emil Jannings fyrir frammistöðu sína í myndunum The Last Command og The Way of All Flesh. Hann þurfti að snúa aftur til Evrópu fyrir athöfnina og fékk því verðlaunin fyrir hátíðina, sem gerir hann að fyrsta Óskarsverðlaunahafa sögunnar.

Fyrst um sinn voru leikarar heiðraðir fyrir frammistöðu í nokkrum myndum en frá og með fjórðu athöfninni breyttist kerfið og voru fagmenn heiðraðir fyrir hlutverk sitt í einni mynd.

Það var ekki fyrr en árið 1953 að verðlaunaafhendingin var fyrst sýnd í sjónvarpi en nú til dags er henni sjónvarpað beint til tvö hundruð landa. Eru þetta elstu verðlaunin í skemmtanaiðnaðinum og eru þau fyrirmynd verðlauna eins og Emmy-, Tony-og Grammy-verðlaunanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.