Innlent

„Á endanum nást alltaf niðurstöður“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Óhætt er að fullyrða að ekki hafi verið meira umstang á skrifstofu ríkissáttasemjara í áraraðir. Eigi færri en fimmtán kjaradeilur inni á borði þar nú og fleiri á leiðinni.

„Það er alveg rétt, þetta er orðin nokkuð góð skorpa,“ segir Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari.

Frá verkfalli grunnskólakennara fyrir áratug má heita að launþegar hafi ekki beitt verkfallsvopninu í kjaradeilum síðan. Ekki einu sinni í kjölfar efnahagshrunsins 2008 skapaðist mikill órói á vinnumarkaðnum. Annað er hinsvegar uppi á teningnum núna.

Sólahrings vinnustöðvun sjúkraliða og starfsmanna SFR á hjúkrunarheimilum hófst á miðnætti. Sáttafundur hófst núna síðdegis en á miðvikudaginn hefst allsherjarverkfall ef ekki semst fyrir þann tíma. Þá leggja grunnskólakennarar niður störf öðru sinni á miðvikudaginn náist ekki samkomulag á næstu tveimur dögum.

Húsnæði ríkissáttasemjara
„Almennu fréttirnar eru þær að það eru mjög málefnalegar umræða í þessum deilum og yfirleitt færast þær nær niðurstöðu. En það er ekki hægt að segja hvenær það verður eða getur orðið.”

Icelandair felldi niður 11 ferðir í dag vegna manneklu og urðu tafir á mörgum ferðum einnig. Yfirvinnubann hjá flugfreyjufélagi Íslands tók gildi í gærmorgun og þá neita margir flugmenn að vinna yfirvinnu. Enn er ósamið við flugvirkja sem funduðu í dag.

Sjómenn fiskiskipaflotans og samninganefnd útvegsmanna ræddu málin hjá ríkissáttasemjara í morgun en deilunni var vísað til ríkissáttasemjara fyrir tveimur árum.

Ljóst má vera af þessari upptalningunni í þessari frétt að eftir stórátakalausan áratug á vinnumarkaðnum, í það minnsta hvað kjaradeilur varðar, erum við stödd í ólgusjó. Ríkissáttasemjari er þó æðrulaus gagnvart þeim verkefnum sem hann glímir við núna og eins þeim sem framundan eru.

„Á endanum nást alltaf niðurstöður,” segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×