Íslenski boltinn

2-0 forysta skilaði Keflavík ekki sigri gegn Val í Dalnum | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heil umferð fer fram í Pepsi-deild karla í kvöld en flautað verður síðast til leiks hjá Val og Keflavík sem mætast á gervigrasvellinum í Laugardal klukkan 20.30.

Sá leikur verður í beinni útsendingu sem og leikur Víkings og Fram sem hefst klukkan 18.00 en eftir seinni leikinn eru Pepsi-mörkin svo á dagskrá. Sex klukkutíma fótboltaveisla á Stöð 2 Sport.

Keflavík vann seinni leik liðanna í deildinni á síðasta tímabili en á undan því hafði Valur unnið Keflvíkinga, 4-0, í þremur leikjum í röð.

Leikurinn í kvöld fer fram sem fyrr segir í Laugardalnum en þar mættust liðin síðast í úrvalsdeildinni árið 2007. Reyndar ekki á gervigrasinu heldur Laugardalsvellinum sjálfum þar sem Valur hafði heimavöll á meðan Vodafonevöllurinn var í byggingu.

Þetta sumar varð Valur meistari eftir 18 ára bið en Keflavík var ríkjandi bikarmeistari og bæði lið virkilega vel mönnuð. Keflavík komst í 2-0 í leiknum með mörkum ÞórarinsBrynjars Kristjánssonar og Baldurs Sigurðssonar, núverandi fyrirliða KR, en það dugði skammt.

Skagamaðurinn Hafþór Ægir Vilhjálmsson minnkaði muninn fyrir Val á 68. mínútu og Daníel Hjaltason tryggði Val annað stigið með fallegu skallamarki á 87. mínútu leiksins. Eitt stig til viðbótar í átt að Íslandsmeistaratitlinum.

Aðeins tveir leikmenn af 36 sem voru á leikskýrslu eru enn í sama liði en það eru Keflvíkingarnir Einar Orri Einarsson og Magnús Þórir Matthíasson sem báðir byrjuðu á varamannabekknum.

Fyrirliðar liðanna í leiknum, Sigurbörn Hreiðarsson og Jónas Guðni Sævarsson, eru nú þjálfari Hauka og fyrirliði KR.

Í spilaranum hér að ofan má sjá mörkin úr þessum sjö ára gamla leik sem fram fór í Dalnum og er vonandi að leikurinn í kvöld verði jafnskemmtilegur.

Leikskýrslan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×