Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn fær hæst framlög frá ríkissjóði

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Stjórnmálasamtök sem hafa fengið að minnsta kosti einn kjörinn mann á þing eða náð að lágmarki 2,5 prósent atkvæða eiga rétt til framlaga.
Stjórnmálasamtök sem hafa fengið að minnsta kosti einn kjörinn mann á þing eða náð að lágmarki 2,5 prósent atkvæða eiga rétt til framlaga. VÍSIR/GVA
Sjálfstæðisflokkurinn fær hæst framlög stjórnmálaflokka úr kassa ríkissjóðs fyrir árið 2014 eða tæpar 75 milljónir króna. Framsóknarflokkurinn fær næst mest eða tæpar 69 milljónir króna. Samfylkingin fær svo tæpar 37 milljónir króna.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman upplýsingar um greiðslur ríkisins til stjórnmálasamtaka fyrir árið. Á vefsíðu ráðuneytisins kemur fram að greiðslur til stjórnmálasamtaka séu samkvæmt ákvörðun fjárlaga hverju sinni.

Stjórnmálasamtök sem hafa fengið að minnsta kosti einn kjörinn mann á þing eða náð að lágmarki 2,5 prósent atkvæða eiga rétt til framlaga. Það framlag skiptist hlutfallslega milli flokka eftir atkvæðamagni í næstliðnum kosningum.

Þá geta stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum í kosningum til Alþingis sótt um sérstakan fjárstyrk úr ríkissjóði að loknum kosningum til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu. Sá styrkur er greiddur burt séð frá þeim atkvæðafjölda sem flokkurinn fær og nemur þremur milljónum króna. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð fékk rúmar 32 milljónir króna í framlög og Björt framtíð fékk rúmar 25 milljónir. Píratar fengu tæpar 17 milljónir og Dögun og flokkur heimilanna fengu rúmar 11 milljónir hvor. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×