Innlent

Tannlæknastofa Petru býður eldri borgurum á Ragga Bjarna

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
„Tónleikar með Ragga Bjarna sem verða á 9-unni föstudaginn 11. Apríl kl. 20:00, verða í boði tannlæknastofu Petru Vilhjálmsdóttir, í minningu ömmu Petu.“ Svona lítur tilkynning á heimasíðu sveitarfélagsins Ölfusar út.

Petra Vilhjálmsdóttir tannlæknir stendur á bakvið tónleikana sem verða í Þorlákshöfn í kvöld.

„Já, ég ætlaði að gera eitt góðverk á árinu og ákvað að þetta yrði það,“ segir hún og heldur áfram:

„Tannlæknastofunni í Þorlákshöfn hefur gengið mjög vel og ég ákvað að bjóða öllum eldri borgurum í bænum á tónleikana. Félag eldri borgara í Þorlákshöfn heldur upp á tuttugu ára afmælið sitt um þessar mundir.“

Amma Peta, sem minnst er á í fréttatilkynningunni, er Petrea Vilhjálmsdóttir, amma Petru, sem lést fyrir tveimur árum úr krabbameini.

„Allt fólkið sem verður á tónleikunum voru vinir hennar og mér þykir alveg rosalega vænt um það. Ég var mikið hjá ömmu og er búinn að vera með annan fótinn í Þorlákshöfn síðan ég var lítil.“

Sjálfur Raggi Bjarna mun því mæta og skemmta eldri borgurum í Þorlákshöfn í kvöld – í boði Tannlæknastofu Petru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×