Innlent

Engin sátt í sjónmáli hjá flugmálastarfsmönnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vinnustöðvun í Leifsstöð í síðustu viku.
Frá vinnustöðvun í Leifsstöð í síðustu viku. Vísiri
Samningafundur í kjaradeilu flugmálastarfsmanna í húsnæði ríkissáttasemjara í morgun skilaði engum árangri. Kristján Jóhannsson, formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, sagðist í samtali við fréttastofu vera vonsvikinn með gang mála og að engin sátt væri í sjónmáli.

Annar fundur hefur verið boðaður á miðvikudag en Kristján segir ólíklegt að fundað verði um páskana. Flugmálastarfsmenn ætla að leggja niður störf í fimm klukkustundir á miðvikudag í næstu viku og aftur föstudaginn 25. apríl.

Allsherjarverkfall hefst 30. apríl ef ekki verður búið að leysa deiluna fyrir þann tíma. Miklar tafir urðu á innanlands- og millilandaflugi þegar flugmálastarfsmenn lögðu tímabundið niður störf á þriðjudag í síðustu viku.

Í tilkynningu sem Neytendasamtökin birtu í dag kemur fram að aflýsi ferðasali ferð vegna verkfalls eigi ferðalangar rétt á fullri endurgreiðslu eða nýrri ferð. Söluaðili að pakkaferðum geti ekki vísað í að um óviðráðanlegar ástæður sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×