Innlent

Tæp 40 prósent myndu íhuga að kjósa nýjan hægri flokk

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Tæp 40 prósent segja það koma til greina að kjósa nýtt framboð sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar
Tæp 40 prósent segja það koma til greina að kjósa nýtt framboð sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar
Tæplega fjörutíu prósent þeirra sem þátt tóku í nýrri könnun MMR segja það koma til greina að kjósa nýjan flokk sem nyti stuðning Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, í næstu Alþingiskosningum.

Könnunin var gerð dagana 28. mars til 1. apríl.

Ekki hefur áður mælst svo mikill stuðningur við hugsanlegt framboð tengt einum frambjóðanda í könnunum MMR. Áður var spurt um hugsanleg framboð tengd Lilju Mósesdóttur annars vegar og Guðmundi Steingrímssyni hins vegar.

Mestur stuðningur við framboðið var á meðal stuðningsmanna Bjartra Framtíðar.

Spurt var „Kæmi til greina að þú kysir nýtt framboð hægrimanna, sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, ef það byði fram í næstu Alþingiskosningum?" 38,1% aðspurðra sögðu koma til greina að kjósa framboðið.

Tæp 44% höfuðborgabúa sem tóku afstöðu sögðu það koma til greina að kjósa framboðið samanborið við 28,3% þeirra sem búsettir eru á landsbyggðinni.

Talsverður munur var á stuðningi við þetta hugsanlega framboð ef litið var á tekjur aðspurðra. Mestur stuðningur mældist við framboðið á meðal þeirra tekjuhæstu, 55,7% þeirra með 800 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun sögðu koma til greina að kjósa framboðið. 23,3% þeirra með undir 250 þúsund krónur á mánuði sögðu það koma til greina að styðja nýjan flokk.

Nokkur munur var á afstöðu fólks til framboðsins eftir því hvaða flokk það kaus í síðustu kosningum. Þannig kæmi framboðið til greina hjá 52,3% þeirra sem kusu Bjarta framtíð í síðustu kosningum, 48,7% Sjálfstæðisfólks, 42,7% Pírata, 35,9% Framsóknarfólks, 30,1% Samfylkingarfólks og 20,0% Vinstri-grænna.

Alls voru 960 manns spurðir og var notað slembiúrtak úr hópi álitsgjafa MMR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×