Innlent

Skaut mann í andlitið

Hrund Þórsdóttir skrifar
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um að hafa framið mörg gróf afbrot. Er honum meðal annars gefið að sök að hafa skotið annan mann með loftskammbyssu í andlitið.

Brotið átti sér stað í janúar síðastliðnum og leitaði maður á slysadeild eftir að hafa verið skotinn með loftbyssu í andlitið. Skotið fór inn rétt fyrir neðan augabrún og litlu munaði að það færi í augað. Um fíkniefnasala var að ræða sem hafði fengið beiðni um að koma með sendingu að húsi en þar var svo gengið í skrokk á honum, meðal annars með fyrrgreinduma afleiðingum. Hinn kærði neitaði sök en vitni sögðu meðal annars við skýrslutöku að kvöldið áður hefði hann haft í fórum sínum svarta skammbyssu með gashylki í.

Maðurinn var síðast handtekinn þann 18.mars síðastliðinn, þá grunaður um líkamsárás. Var þá tilkynnt til lögreglu að tveir menn eltu þann þriðja með hafnaboltakylfu og þótti lýsing á þeim sem beitti kylfunni passa við hinn kærða. Brotaþolinn hlaut áverka í andliti og flísaðist upp úr tönn hjá honum við höggin.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness er hinn kærði sagður undir rökstuddum grun um að hafa framið fjölda afbrota, meðal annars líkamsárásir, fjársvik, vopnað rán og þjófnað.Þau eru öll talin hafa átt sér stað eftir að hann lauk afplánun síðasta sumar vegna annarra brota.

Frá árinu 2006 hefur maðurinn fengið á sig þrettán dóma fyrir margvísleg brot. Að mati lögreglu hefur hann sýnt einbeittan brotavilja og þykja yfirgnæfandi líkur á að hann haldi áfram að brjóta af sér gangi hann laus. Maðurinn verður í gæsluvarðhaldi til 16. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×