Innlent

Samkomulag um hreinsun og greiðslu einnar milljónar í skaðabætur

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Örn Sigurðsson, skrifstofustjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar, segir að reikna megi tjónið á marga vegu. Þetta hafi þótt ásættanleg niðurstaða.
Örn Sigurðsson, skrifstofustjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar, segir að reikna megi tjónið á marga vegu. Þetta hafi þótt ásættanleg niðurstaða. VÍSIR/SKJÁSKOT ÚR FRÉTTUM STÖÐVAR 2
Reykjavíkurborg og íbúar við Rituhóla hafa gert með sér samkomulag vegna eignatjóns borgarinnar á skógi í Elliðaárdal fyrir neðan Rituhóla. Tjónið varð 1. maí í fyrra þegar íbúar við Rituhólar felldu fjölda trjáa í skógi borgarinnar.

Samkomulagið felur í sér að íbúarnir greiða eina milljón króna í skaðabætur. Auk þess sem þeir taka að sér fegrun og hreinsun svæðisins og endurplöntun trjáa. Íbúarnir munu jafnframt hafa eftirlit með umgengni á svæðinu í samvinnu við borgarstarfsmenn. Samkomulagið gildir í þrjú ár.

Örn Sigurðsson, skrifstofustjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar, segir að reikna megi tjónið á marga vegu. Þetta hafi þótt ásættanleg niðurstaða.

Útsýnið ekki upp á marga fiska

„Við erum ekki búin að telja þau, en þau hlaupa á tugum og skemmdirnar eru miklar. Þau höggva þarna tré sem eru 1,80 m á hæð og skilja stubbana eftir. Þetta hefur reyndar verið vandamál undanfarin ár. En ekki í svona miklu mæli eins og er núna. Þessi tré sem voru felld núna eru mörg hver orðin þrjátíu ára. Þau voru svipt sínu dvalarlífi af örfáum íbúum og sérhagsmunum," sagði Björn Júlíusson, umsjónarmaður Útmarka Reykjavíkurborgar, í fréttum Stöðvar 2 þegar málið kom upp á síðasta ári.

Lóðirnar í Rituhólum og nærliggjandi götum voru á sínum tíma seldar sem útsýnislóðir. Þegar aspirnar og grenið í  Elliðaárdal tóku að teygja anga sína hátt varð útsýnið sem margir fjárfestu í ekki upp á marga fiska.

Reykjavíkurborg mun í kjölfar greiðslunnar afturkalla kæru vegna málsins sem lögð var fram hjá Lögreglustjóra Höfuðborgarsvæðisins og falla frá frekari bótakröfum vegna meintra eignaspjalla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×