Innlent

Lesendur Kvennablaðsins ósáttir við pistla um femínisma

Eva Hauksdóttir.
Eva Hauksdóttir. vísir/aðsend
Ritstjórn Kvennablaðsins hafa borist kvartanir vegna skrifa Evu Hauksdóttur á dögunum um hvernig hægt sé að uppræta femínisma.

„Sjálf hef ég ekki fengið skilaboð frá þeim sem eru að þrýsta á ritstjórn Kvennablaðsins um að úthýsa mér en hef hinsvegar fengið fjölda skilaboða frá fólki sem telur fulla þörf á gagnrýni á þá kvenhyggju sem enn rær að því öllum árum að einoka umræðu um kynjapólitík,“ segir Eva í pistli sínum á Eyjunni.

Eva birti pistil um fjórtán einkenni femínisma síðastliðinn miðvikudag í Kvennablaðinu. Pistillinn vakti töluverða athygli og í kjölfarið bárust kvartanir til ritstjórnar blaðsins að því er Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins, staðfestir í samtali við Vísi.

„Ekki virðist þó neinn kvartenda treysta sér til þess að hrekja þá greiningu sem ég set fram í pistlinum heldur snýr óánægjan að því að einhver leyfi sér slík helgispjöll að benda á hið augljósa sem svo mörgum tekst þó að líta fram hjá,“ skrifar Eva í pistli sínum.

Steinunn Ólína segir við Vísi að mikill akkur sé að hafa Evu sem pistlahöfund í Kvennablaðinu

„Eva Haukdóttir er að mínu mati einhver sterkasti penni og samfélagsrýnir landsins og ritstjórn Kvennablaðsins hefur ekki í hyggju að stýra skrifu Evu á síðum Kvennablaðsins.“

Uppfært klukkan 20:30:

Sagt var að pistlar Evu sem sneru að upprætingu femínisma myndu eingöngu birtast á Eyjunni. Það er ekki rétt. Biðst Vísir velvirðingar á misskilningnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×