Innlent

Brjóstagjöf tröllskessu kom í veg fyrir útgáfu í Bretlandi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Guðrún og Flumbra, vinkonurnar sem báðar hneyksluðu Breta með brjóstagjöf.
Guðrún og Flumbra, vinkonurnar sem báðar hneyksluðu Breta með brjóstagjöf. Vísir/GVA
Brjóstagjöf tröllskessunnar Flumbru varð til þess að samnefnd bók eftir Guðrúnu Helgadóttur var ekki gefin út í Bretlandi á sínum tíma. Þetta kom fram í skrifum Guðrúnar á Facebook, í svari við stöðuuppfærslu Andra Snæs Magnasonar.

Blaðamaður hafði samband við Guðrúnu vegna málsins.

„Já, bókin var komin til forlags í Bretlandi og var vel tekið í að gefa hana út þar í landi, nema með því skilyrði að einni allra fallegustu myndinni, í bókinni, eftir Brian Pilkington yrði breytt. Á þessari mynd situr Flumbra vinkona mín og gefur börnunum brjóst. Þetta voru heilmikil brjóst. En það leyst Bretunum ekkert á. Þeir vildu að við Brian myndum lyfta blússunni hennar uppyfir brjóstið svo það sæist ekki.“

Guðrún segir þessa hugmynd aldrei hafa getað orðið að veruleika – því brjóstagjöfin varð að vera á þennan hátt ef söguþráðurinn ætti að ganga upp.

„Þegar Flumbra var að gefa strákunum sínum að drekka – og þeir búnir að drekka nægju sína – var ennþá svo mikil mjólk í brjóstunum á henni að mjólkin flæddi niður hlíðarnar og safnaðist í rjómahvítar tjarnir niður á sléttunni. Og fólkið kom og sagði: „Ó hvað þetta er fallegt.“ Og ef það kæmi ekki fram að mjólkin kæmi úr brjóstunum á Flumbru, þá væri enginn botn í þessum texta.“

Guðrún afþakkaði því þetta boð Bretanna.

„Ég sagði bara „ellers tak venner“, það verður bara ekkert úr þessu. Þar með fór heimsfrægð mín í Bretlandi forgörðum,“ segir Guðrún og hlær.

Útaf brjóstum?

„Já útaf brjóstunum á tröllkellingunni,“ segir Guðrún ennþá hlæjandi.

Yfirkomin af hneykslun

Guðrún segist hafa hneykslast á þessari hugmynd bresku útgefendanna. „Ég var ung og æst og var yfirkomin af hneykslun. En nú er ég orðin rólegri og horfi á þetta með bros á vör.“

Guðrún segir að Bretland hafi verið eina landið þar sem reynt var að hylja brjóst Flumbru. „Það var hvergi annarsstaðar reynt. Ekki í Bandaríkjum, ekki í þræl kaþólskum löndum, ekki í Kóreu eða Japan. Það elskuðu allir Flumbru.“

Hún bjóst frekar við því að einhver myndi hneykslast á sambandi Flumbru við tröllkarlinn sinn.

„Ég hélt nú kannski að fólk yrði hneykslaðra á því þegar þau hittast eftir langa fjarveru og karlinn heldur greinilega á henni nakinni. Það sést aftan á karlinn og er hann greinilega með hana nakta í fanginu. Enginn gerði mig athugasemd við það, ekki einu sinni Bretarnir.“

Reyndar segist Guðrún sjálf hafa farið fram á að myndum í bókinni yrði breytt.

„Reyndar er ég í hópi þeirra sem fóru fram á breytingu á myndum af velsæmisástæðum. En það var áður en bókin kom út á Íslandi. Myndin af endurfundum elskendanna var upphaflega þannig að ekki aðeins hélt hann á ástkonu sinni nakinni, heldur var hann með allt á hælunum. Ég bað Brian, í Guðanna bænum, að hysja upp um hann buxurnar og það var í eina skiptið sem ég blandaði mér í myndskreytingar í bókinni.“

Hún segir athugasemdir Bretanna þó ekki hafa komið sér á óvart. Guðrún bjó sjálf í Bretlandi og segist hafa upplifað þessa óvild á brjóstagjöf af eigin hendi.

„Þessar athugasemdir Breta við myndina af brjóstagjöfinni komu mér ekki á óvart. Bretar vita ekkert eins ógeðslegt eins og að sjá barn sjúga móður sína. Mér var næstum vísað út af barnaklíníkinni í Edinborg þegar ég var að gefa barni brjóst og var kurteisislega beðin að vera ekki að þessu fyrir framan aðra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×