Innlent

Radíó Stam fer í loftið í kvöld

Samúel Karl Ólason skrifar
Árni Heimir Ingimundarson, formaður Málbjörgar og þáttastjórnandi Radíó Stam.
Árni Heimir Ingimundarson, formaður Málbjörgar og þáttastjórnandi Radíó Stam. Aðsend mynd
Málbjörg - félag um stam á Íslandi stendur fyrir tímabundinni útvarpsstöð sem byrjar útsendingar í kvöld klukkan 20:00. Radíó Stam FM 98,3. Markmið útvarpsstöðvarinnar er að auka sýnileika stams í samfélaginu og skapa jákvæða umræðu um þátttöku þeirra sem glíma við talmein í ljósvakamiðlum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Málbjörgu.

Útvarpsstöðin mun vera í loftinu í einn mánuð og verða þættir hennar viðtalsþættir í formi tveggja manna tals við þjóðþekkta landsmenn. Nú þegar hafa fjölmargir á sviði viðskipta, menntamála, stjórnmála og lista í samfélaginu staðfest komu sína.

Að jafnaði verður dagskrá útvarpsstöðvarinnar tvisvar á dag. Alla virka morgna frá átta til níu og virk kvöld frá átta til níu. Þá verða upptökur af þáttum gerðar aðgengilegar á netinu.

Árni Heimir Ingimundarson, formaður Málbjörgar, verður þáttastjórnandi en hann hefur glímt við stam frá blautu barnsbeini. Fyrsti gestur Radíó Stam verður Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjagoði og tónskáld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×