Innlent

Stamandi útvarpsstjóri

Birta Björnsdóttir skrifar
Árni Heimir Ingimundarson, útvarpsmaður og formaður Málbjargar.
Árni Heimir Ingimundarson, útvarpsmaður og formaður Málbjargar.
Útvarp Stam verður í loftinu næsta mánuðinn, en útvarpsstöðinni er ætlað að auka sýnileika stams í samfélaginu sem og að skapa jákvæða umræðu um þátttöku þeirra sem glíma við talmein í ljósvakamiðlum.

Árni Heimir Ingimundarson, formaður Málbjargar, verður í hlutverki útvarpsmanns og útvarpsstjóra á stöðinni nýju og hann hlakkar til að fá fólk í viðtöl.

„Þetta gæti verið svolítið spennandi fyrir hlustendur að fylgjast með manni sem stamar taka drottningaviðtöl við þjóðþekkta Íslendinga," segir Árni.

„Við verðum með framámenn á sviðum stjórnmála, viðskipta, menntamála og líka lista, en það gekk nú frekar illa að fá íþróttamenn í spjall svo ef einhver þekktur íþróttamaður vill slá til má hann endilega hafa samband."

Meðal þeirra sem hafa boðað komu sína í hljóðver til Árna eru Hilmar Örn Hilmarsson, alsherjargoði, Ólafur Darri Ólafsson, leikari, Rannveig Rist, forstjóri og stjórnmálamennirnir Steingrímur J. Sigfússon, Brynjar Níelsson og Dagur B. Eggertsson.

„Þetta verður allt á uppbyggilegum nótum. Ég mun spyrja gesti mína um bernsku þeirra, skólagöngu og starfsferil auk þess sem þeir fá allir að velja sér nokkur lög," segir Árni, en gestum hans gefst einnig kostur á að spyrja hann spurninga um stam.

„Fólk er áhugasamt um stam og mörgum finnst það sérstakt. Það er mjög mikilvægt að það sé til staðar þolinmæði, bæði hjá þeim sem er að hlusta og einnig þeim sem stamar sjálfur."

Útvarp Stam er aðgengilegt á tíðninni FM 98,3 auk þess sem starfrækt er Facebook-síða með öllum helstu upplýsingum um viðmælendur og dagskrá stöðvarinnar auk þess sem öll viðtölin verða aðgengileg þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×