Íslenski boltinn

Haukur Páll skoraði tvö í sigri Vals | Létt hjá Víkingum gegn Selfossi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Páll skoraði tvö mörk gegn Ólsurum.
Haukur Páll skoraði tvö mörk gegn Ólsurum. Vísir/Valli
Valsmenn unnu nauman sigur á 1. deildar liði Víkings Ólafsvíkur, 3-2, í riðli 3 í A-deild Lengjubikarsins í fótbolta í kvöld.

Fannar Hilmarsson kom Ólsurum yfir í Egilshöllinni en miðjumaðurinn nautsterki, Haukur Páll Sigurðsson, jafnaði fyrir Val, 1-1, tíu mínútum síðar og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Aftur komust Ólsarar yfir með marki Eyþórs Helga Birgissonar eftir fjórar mínútur í síðari hálfleik en Mads Nielsen, Daninn sem Valur er með á láni frá Bröndby, jafnaði leikinn á 63. mínútu. Fyrsta mark Danans í sínum fyrsta leik fyrir Val.

Það var svo Haukur Páll Sigurðsson sem skoraði sigurmarkið fimmtán mínútum fyrir leikslok, 3-2. Valsmenn eru með þrjú stig eftir tvo leiki en Ólsarar búnir að tapa báðum sínum leikjum til þessa.

Víkingar úr Reykjavík fóru létt með Selfoss í seinni leik kvöldsins í sama riðli en nýliðarnir í Pepsi-deildinni unnu öruggan 4-0 sigur.

Sveinbjörn Jónasson heldur áfram að gera það gott fyrir Víkinga á undirbúningstímabilinu en hann skoraði fyrsta mark leiksins á 32. mínútu, 1-0, og þannig var staðan í hálfleik.

Sveinbjörn kom til Víkinga frá Þrótti í vetur og skoraði fjögur mörk í fjórum leikjum í Reykjavíkurmótinu. Hann er nú kominn á blað í Lengjubikarnum.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks var Einar Otto Antonsson rekinn af velli hjá Selfossi og það nýttu Víkingar sér í seinni hálfleik.

Viktor Jónsson skoraði tvö mörk, á 69. og 81. mínútu, og þar á milli skoraði bakvörðurinn efnilegi Ívar Örn Jónsson. Ívar tryggði Víkingum sigur með aukaspyrnumarki í fyrsta leik Lengjubikarsins gegn Stjörnunni en lokatölur í kvöld, 4-0.

Víkingar eru í öðru sæti þriðja riðils með fjögur stig en Selfyssingar með þrjú stig. Þeir unnu Ólafsvíkinga í fyrsta leik riðilsins.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá fotbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×