Sport

Williams varð af sögulegri gulltvennu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Williams, til hægri, ásamt liðsfélaga sínum.
Williams, til hægri, ásamt liðsfélaga sínum. Vísir/Getty
Bandaríkin áttu sigurinn vísan í tvímenningi kvenna í bobsleðakeppni á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í kvöld en urðu að játa sig sigruð á lokasprettinum.

Þær Elena Meyers og Lauryn Williams, sem skipa fyrsta keppnislið Bandaríkjanna, voru á góðum tíma eftir fyrstu þrjár umferðirnar og í forystu fyrir síðustu umferðina.

En þær gerðu sig seka um slæm mistök þegar mest á reyndi og komu í mark á lakasta tímanum sínum í dag - 58,13 sekúndum. Samanlagt voru þær á 3:50,71 mínútum - einum tíundahluta úr sekúndu á eftir þeim Kaillie Humphries og Heather Moyse frá Kanada sem fögnuðu gullverðlaunum.

Williams hefði með sigri í dag orðið fyrsta konan til að vinna gullverðlaun á bæði Sumar- og Vetrarólympíuleikum. Williams er einnig spretthlaupari og á gull í 4x100 m boðhlaupi kvenna frá leikunum í Lundúnum árið 2012.

Gullverðlaunahafarnir frá Kanada.Vísir/Getty


Williams á einnig silfur í 100 m hlaupi frá Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004 en silfrið sem hún vann í dag var það fyrsta sem hún vinnur á Vetrarólympíuleikum.

Humphries og Moyse unnu gull í þessari grein í Vancouver fyrir fjórum árum síðan og vörðu því Ólympíumeistaratitil sinn í dag.

Annað lið Bandaríkjanna, með þeim Aja Evans og Jamie Greubel, unnu svo til bronsverðlauna.

Williams eftir sigurinn í boðhlaupi kvenna í Londúnum árið 2012.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Bein útsending frá ÓL 2014 | Dagur 12

Vísir er með beina útsendingu frá keppni á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi en tólfti keppnisdagur leikanna er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×