Sport

Ban Ki-moon mætir til Sotsjí

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ban Ki-moon og Barack Obama lyfta glösum.
Ban Ki-moon og Barack Obama lyfta glösum. Vísir/Getty
Ban Ki-moon, ritari Sameinuðu þjóðanna, hefur boðað mætingu sína á setningarhátíð Vetrarólympíuleikanna í Sotsjí sem fram fer á föstudaginn. Hann mun einnig nýta tækifærið og funda með þjóðarleiðtogum annarra landa.

Nokkrir af helstu leiðtogum heimsins verða þó fjarverandi. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, Francois Hollande, forseti Frakklands og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hafa allir boðað forföll. Er talið að ástæðuna megi í það minnsta að hluta rekja til viðhorfs Rússa gagnvart samkynhneigðum.

Rússar hafa hlotið mikla gagnrýni og hefur íþróttafólk og þjóðarleiðtogar verið hvatt til að sniðganga leikanna sökum laga sem tóku gildi síðastliðið sumar. Nýju lögin banna að fjallað sé um samkynhneigð í nærveru barna eða að nokkur áróður sé hafður í frammi gagnvart börnum.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefur staðfest að allir séu velkomnir á leikana óháð kynhneigð. Hann fullyrðir að engin mismunun eigi sér stað gagnvart samkynhneigðum í Rússlandi. Undir það tók sendiherra Rússlands á Íslandi á dögunum í viðtali við Fréttablaðið.

„Það eru engin vandamál. Lög okkar takmarka ekki réttindi samkynhneigðra á nokkurn hátt nema að því leyti að við viljum að börn séu látin í friði,“ segir Andrei Tsyganov. Lögin banna „áróður“ fyrir samtökum samkynhneigðra gagnvart börnum. „Þú mátt gera hvað sem þú vilt er snertir samkynhneigð en láttu börnin eiga sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×