Íslenski boltinn

Eiður Aron áfram hjá ÍBV

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/HAG
Varnarmaðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson mun spila með ÍBV næsta sumar en hann verður í láni frá sænska liðinu Örebro.

Eiður Aron skrifaði undir samning við Eyjamenn í gær en um að ræða svokallaðan kaupleigusamning, eins og það er orðað í frétt á heimasíðu félagsins. ÍBV hefur forkaupsrétt á Eiði Aroni á samningstímanum.

Eiður er uppalinn hjá ÍBV en var seldur til Örebro árið 2011. Hann var svo lánaður aftur til Eyja í fyrra og var þá fyrirliði ÍBV í Pepsi-deildinni.

„Við ætlum að gera betur en á síðasta tímabili og ráðning Eiðs Arons er mikilvægur liður í þeirri baráttu,“ sagði Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, í frétt sem birtist á heimasíðu ÍBV.

Eiður Aron stefnir enn að því að komast að í atvinnumennskunni og að hann hafi fengið nokkur tilboð. „Mig langar að sanna mig aftur og besti staðurinn til þess er á heimaslóðum í Eyjum,“ sagði Eiður Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×