Innlent

Ungir drengir hvattir til lestrar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vísir/Valli
Kátt var á hjalla þegar rithöfundurinn vinsæli Andri Snær Magnason ræddi vítt og breitt um bækur, bóklestur, persónuleg ástarljóð og fleira við drengi í 9. og 10. bekkjum Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi í Bókasafni Seltjarnarness fyrr í morgun. Andri Snær var sérstakur gestur Bókasafnsins í vitundarvakningu sem starfsfólk safnsins hleypti af stað í dag meðal unglingsdrengja til að hvetja og stuðla að lestri bóka.

Andri Snær ræddi um mátt bókarinnar og tóku drengirnir virkan þátt í spjallinu. Í tilefni af lestrarvakningunni hafa starfsmenn Bókasafnsins komið upp stórri sýningu sem gæti fallið ungum drengjum í geð.

Íslensku kennarar Valhúsaskóla, sem fylgdu drengjunum í morgun, hafa ákveðið í kjölfarið að skipuleggja heimsóknir annarra ungmenna við skólann á Bókasafnið til að kynna þeim þann bókakost sem settur hefur verið fram í tilefni af vitundarvakningunni, en þess má geta að nánast öll grunnskólabörn á Seltjarnarnesi hefja alla skóladaga á yndislestri á íslenskum bókum sem stendur yfir í 20 mínútur.

Starfsfólk Bókasafns Seltjarnarness hvetur alla til að kíkja við en það er von þeirra að vitundarvakningin stuðli að því að æ fleiri bækur sjáist á náttborðum ungra drengja í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×