Innlent

1500 jarðskjálftar mældust í mars

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mýrdalsjökull.
Mýrdalsjökull.
Tæplega 1500 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í mars mánuði en þetta kemur fram í frétt á síðu Veðurstofu Íslands.

Mesta virknin var við Húsmúla á Hellisheiði. Skjálftahrina varð 8. og 9. mars undir sunnanverðu Kleifarvatni og fannst stærsti skjálftinn í Hafnarfirði og Reykjavík.

Í byrjun mars varð smáskjálftahrina suðvestur af Herðubreið.

Um 14 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg. Stærsti skjálftinn var 2,5 að stærð og átti upptök við 63,3°N. Flestir hinna skjálftanna áttu upptök við Geirfugladrang og vestur af Reykjanestánni seinni hluta mánaðarins.

Á niðurdælingarsvæði Hellisheiðarvirkjunar við Húsmúla mældust um 350 smáskjálftar.

Mest var skjálftavirknin þann 2. mars og einnig 23. mars en þá mældist stærsti skjálftinn á svæðinu 2,1 stig.

Á Tjörnesbrotabeltinu mældust um 180 jarðskjálftar. Meirihlutinn var á vesturhelmingi Húsavíkur-Flateyjar misgengisins austur af Flatey og fyrir mynni Eyjafjarðar. Stærsti skjálftinn, 2,7 að stærð, varð klukkan hálfeitt aðfaranótt 21. mars, um fimm kílómetra norðaustur af Gjögurtá.

Undir Mýrdalsjökli mældust um 120 jarðskjálftar í mars. Þar af voru rúmlega 50 staðsettir inni í Kötluöskjunni, allir innan við tvö stig. Smáhrina var í lok mánaðarins í vestanverðri öskjunni.

Í mars mældust tæplega 300 skjálftar í Vatnajökli og Dyngjufjöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×