Lífið

Gefst ekki upp þrátt fyrir innbrot

Ellý Ármanns skrifar
Bergrún rak BeMonroe áður á Höfðabakka 2010 - 2011 og á netinu.
Bergrún rak BeMonroe áður á Höfðabakka 2010 - 2011 og á netinu. vísir/gva
Brotist var inn í verslun Bergrúnar Ósk Ólafsdóttur fatahönnuðar rétt fyrir jólin. Hún ákvað að halda ótrauð áfram þrátt fyrir að fá stuldinn ekki bættan og hefur nú opnað glænýja verslun, BeMonroe, á Nýbýlavegi 8 í Kópavogi.

„Lagerinn var hirtur. Það var brotist inn að næturlagi. Þeir spenntu upp hurðina og stálu efnisstrengjum og flíkum. Þeir pikkuðu meira að segja út stærðir en þeir tóku bara small og medium,“ útskýrir Bergrún sem saumar alfarið sjálf leggins, peysur, kjóla og jakka margt fleira og selur í versluninni sem hún stofnaði fyrir fjórum árum.

Hvernig var aðkoman?

„Hún var þannig að ég fattaði ekkki hvað gerðist en sá að það vantaði alla jakkana og leggingsbuxurnar og ég bara snerist í hringi. Eins og lögreglan sagði þá taka þeir oft stóran part og koma svo aftur seinna en þeir hafa ekki komið aftur. Maður fær eiginlega sjokk og manni finnst líka rosalega mikið brotið á sér andlega og vinnulega séð vegna þess að ég hanna og sauma allar mínar flíkur sjálf og þarna fór margra vikna vinna í súginn hjá mér. Þetta voru nokkur hundruð þúsunda verðmæti sem þeir stálu rétt fyrir jólin.“

Ertu tryggð fyrir þessu?

„Nei ég var ekki tryggð fyrir þessu. Þannig að þetta féll ekki undir tryggingarnar mínar. Ég fékk ekkert bætt. Ég þurfti bara að byrja upp á nýtt. Enginn var vitni að neinu. En í dag er ég með tvöfalda tryggingu og þjónustu frá Securitas,“ segir hún reynslunni ríkari.

Hefur þú séð stolnu vörurnar?

„Nei, ég auglýsti eftir þeim á facebook en ekkert kom út úr því. Ég ákvað bara að ég myndi ekki láta þetta stoppa mig því að opna verslun hérna er langþráður draumur hjá mér. Ég ákvað að láta ekki óféti út í bæ eyðileggja fyrir mér.“

„Ég er búin að opna verslunina og vinnustofuna mína hérna á Nýbýlaveginum og er á fullu að hanna og sauma. Ég ákvað að standa við það sem ég ákvað með sjálfri mér að gera en vitanlega kom það upp að gefast upp en ég ákvað að gera það ekki. Ég er búin að vera að vinna að þessari hönnun í mörg ár sem ég er með. Ég ætlaði ekki að fara að hætta við alla draumana mína. Ég á ofsalega góða að – það bjargaði jólunum hjá mér.“

Bergrún vill hvetja fólk til að nota öryggiskerfi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.