Fótbolti

Real Madrid vann hundraðasta leikinn hans Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Real Madrid skoraði bæði mörkin sín á fyrstu tólf mínútunum þegar liðið vann 2-0 heimasigur á Rayo Vallecano í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Real Madrid spilaði manni færra í 72 mínútur.

Sergio Ramos skoraði seinna mark Real á tólftu mínútu en fékk síðan tvö gul spjöld með mínútu millibili og var því rekinn útaf með rautt spjald á 18. mínútu. Real Madrid spilaði því manni færri í 72 mínútur en tókst engu að síður að landa sigri.

Álvaro Morata skoraði fyrra markið á 3. mínútu eftir að Kaka framlengdi sendingu Mesut Özil. Sergio Ramos skoraði markið sitt níu mínútum síðar með skalla eftir aukaspyrnu frá Özil.

Álvaro Morata var tekinn útaf á 27. mínútu þrátt fyrir markið sitt en hann byrjaði í framlínunni í kvöld. Real þurfti að styrkja vörnina eftir brotthvarf Sergio Ramos og því kom Raúl Albiol inn.

Jose Mourinho var þarna að stýra Real Madrid liðinu í hundraðasta sinn en Real-liðið hefur unnið 76 af þessum 100 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×