Innlent

Gleður fjórar fjölskyldur fyrir jól

Egill Fannar Halldórsson skrifar
Örvar Þór Guðmundsson.
Örvar Þór Guðmundsson.
„Ég ætlaði að reyna að safna fyrir tveimur fjölskyldum og setti í bjartsýniskasti 600.000 króna markmið. En ég er kominn með 1.179.000 krónur í dag, svo þetta verða þá allavega fjórar fjölskyldur í ár," segir Örvar Þór Guðmundsson sem stendur fyrir söfnun fyrir þá sem minna mega sín annað árið í röð.

Í fyrra safnaði Örvar fyrir einstæða móður sem hann heyrði vinna jólatré á FM957. „Hún var svo rosalega lukkuleg með vinninginn og sagðist bara eiga 2.000 krónur til að halda jól og lifa út mánuðinn. Ég vildi safna 100.000 krónum fyrir hana svo hún gæti haldið jól en söfnunin endaði í 200.000 krónum," segir Örvar.

Hann ætlaði ekki að vera með söfnun í ár en eftir áskoranir frá fjölda fólks ákvað hann að slá til.

„Ég hugsaði hverjir þurfa mest á þessu að halda og var bent á fjölskyldur með langveik börn sem eiga lítinn pening. Annað foreldrið er fast heima að sjá um barnið en hitt með litlar sem engar tekjur. Það er mikið búið að ganga á hjá þessu fólki svo þetta málefni varð fyrir valinu."

Söfnunin fer eingöngu fram í gegnum fésbókarsíðu Örvars og hafa þar tæplega 200 einstaklingar lagt söfnuninni lið.

„Ég vildi ekki vera að safna fyrir sjampói og allskonar svona rusli heldur bara gera þetta almenninlega svo að þau geti haldið eðlileg jól,“ segir Örvar.

Þrátt fyrir að söfnunin hafi farið fram úr öllum væntingum er Örvar mjög hógvær og segist ekki vera neitt merkilegri en hinir tæplega 200 sem hafa lagt fjölskyldunum lið. Hann segist hins vegar fá töluvert jákvæða athygli og að fólk hringi látlaust í hann og hrósar honum fyrir framtakið.

„Ég er búinn að missa af 3 símtölum bara á meðan ég er að tala við þig,“

segir Örvar og hlær.

Að lokum bætir Örvar við að þessi árlega söfnun í desember sé hefð sem er komin til að vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×