Innlent

Stefnt að malbikun hjólreiðastíga á Hverfisgötu fyrir helgi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
mynd/Reykjavíkurborg
Verið er að ganga frá snjóbræðslu í gangstéttar að sunnanverðu á stórum kafla við Hverfisgötu. Stefnt er að malbikun hjólastíga og hellulögn næstu daga. Á föstudag verður opnað fyrir bílaumferð niður Hverfisgötu frá Vatnsstíg.

Margir starfsmenn verktaka hafa verið að störfum við Hverfisgötu við erfiðar aðstæður að því er kemur fram á vefsíðu Reykjavíkurborgar.

Vinna við endurgerð Hverfisgötu frá Vitastíg niður að Klapparstíg hófst upp úr miðjum júlí. Aðgerðin er mjög umfangsmikil. Endurnýja á allt yfirborð gangstétta og götu ásamt öllum lögnum. Malbikaðar hjólareinar verða  beggja vegna götu. Gatnamót við þvergötur verða steinlögð og upphækkuð. Snjóbræðsla verður sett í gönguleiðir, hjólareinar og upphækkuð gatnamót.

Á vefsíðunni segir að til hafi staðið að framkvæmdunum lyki í nóvember en það hafi ekki gengið eftir af ýmsum ástæðum svo sem seinlegrar lagnavinnu. Eftir að vinna hófst hafi svo verið ákveðið að seinka upphafi framkvæmda á gatnamótum Hverfisgötu og Frakkastígs til að auðvelda flæði umferðar um miðborgina.

Ekki var byrjað að grafa fyrir lögnum þar fyrr en undir lok október og eðli málsins vegna seinki verklokum í samræmi við það. Verið sé að ganga frá fyllingum við fráveitulagnir og verður þá strax greiðfærara fyrir gangandi vegfarendur um svæðið. Endanlegum frágangi á þessum gatnamótum lýkur eftir jól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×