Innlent

Lögregla rannsaki Eir

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Pjetur
Á stofnfundi Hagsmunafélags íbúðaréttarhafa á Eir í kvöld kom fram að búið er að leggja fram beiðni til ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara um rannsókn á málefnum hjúkrunarheimilisins. Mbl.is greinir frá þessu.

Einnig kom fram á fundinum að tilboð hafi verið lagt fram í allar eignir Eirar, en stjórnin hafi hafnað því. Þá var ákveðið á fundinum að ráða Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmann til að vinna fyrir félagið.

Jóhannes Páll Símonarson sagðist hafa sent beiðni um áðurnefnda rannsókn á málefnum Eirar og að í skýrslu Deloitte um rekstur hjúkrunarheimilisins væri gefið til kynna að með athafnaleysi hefðu stjórnarmenn Eirar gerst sekir um refsiverða háttsemi.

Einnig er sagt á mbl.is að stjórn Eirar hafi óskað eftir að sérstakur saksóknari rannsaki tiltekin atriði í rekstri Eirar.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að fast í hundrað manns hafi mætt á stofnfundinn.

„Mikill hugur var í fundarmönnum og var hagsmunafélagið stofnað með þau markmið í huga að standa vörð um og tryggja hagsmuni íbúðaréttarhafa á Eir.  Og ekki síður til þess að ná fram fullum endurheimtum á greiðslum frá Eir samkvæmt samningum sem gerðir voru á milli Eirar og íbúðarréttarhafa.“

Þá segir að ljóst sé að hluti íbúðarétthafa og stjórn Eirar greini á um stöðu íbúðarétthafa því þeir telji sig eiga eignaréttarkröfu í þeim íbúðum sem þeir gerðu samninga um.

„Kosin var 5 manna stjórn ásamt 4 manna varastjórn og mun stjórn hins nýja félags í upphafi leggja áherslu á að tryggja sem bestan rétt fyrir íbúðarétthafa m.a. með því að lýsa eignaréttarkröfu fyrir umsjónarmanni með nauðasamningum Eirar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×