Fótbolti

Guðbjörg berst fyrir sínum markmannshönskum

Óskar Ófeigur Jónsson í Växjö skrifar
Guðbjörg og Klara Bjartmarz skoða hanskana.
Guðbjörg og Klara Bjartmarz skoða hanskana. Mynd/ÓskarÓ
Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins, hefur þurft að berjast fyrir því að ná að nota sína hanska í leikjunum á EM í Svíþjóð. Guðbjörg er með sérhannaða hanska frá Uhlsport og þeir eru bæði merktir henni (Gugga) og framleiðandanum.

Klara Bjartmarz, fararstjóri íslenska hópsins, var að fara yfir það með Guðbjörgu í dag hvað hún þyrfti að gera við merkingarnar á hönskunum sínum til þess að þeir verði löglegir í leiknum á móti Þýskalandi.

Klara og Guðbjörg skoðuðu markmannshanska hennar saman í snjalltölvu Klöru og það er orðið ljóst að Guðbjörg þarf að taka upp túss eða "teip" til að hanskarnir komist í gegnum regluverk UEFA.

„Það er alltaf eitthvað vesen á þessum hönskum. Það mega ekki vera of margar auglýsingar á þessum hönskum en þetta eru samt ekki neinar auglýsingar því þetta er bara Uhlsport merki. Ég er með samning við Uhlsport og allir markmenn hafa fengið svona hanska. Ég skil ekki þetta vesen hjá UEFA," segir Guðbjörg.

„Ég er búin að senda tölvupósta hingað og þangað en ég held að ég verði að krassa yfir þessi merki. Þetta reddast allt," segir Guðbjörg jákvæð en samt svolítið pirruð á smámunarsemi Knattspyrnusambands Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×