Fótbolti

Skoruðum síðast hjá Þýskalandi fyrir fall járntjaldsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnheiður Víkingsdóttir tekur við Íslandsmeistaratitlinum fyrir hönd Valskvenna árið 1989.
Ragnheiður Víkingsdóttir tekur við Íslandsmeistaratitlinum fyrir hönd Valskvenna árið 1989.
Óhætt er að segja að lítil ástæða sé til bjartsýni þegar íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Þjóðverjum. Í það minnsta sé litið til sögunnar.

Síðan Valskempurnar Guðrún Sæmundsdóttir og Ragnheiður Víkingsdóttir skoruðu hvort sitt markið í 3-2 tapi gegn Vestur-Þjóðverjum í vináttuleik í Delmenhorst þann 6. september 1987 hafa þýskir markverði haft það náðugt gegn Íslendingum.

Þjóðirnar hafa mæst tólf sinnum í landsleik og hafa Þjóðverjar haft betur í öll skiptin. Vestur-Þjóðverjar sigruðu í fyrstu viðureign þjóðanna þann 27. júlí 1987. Þá skoraði Keflvíkingurinn Katrín María Eiríksdóttir mark Íslands í 4-1 tapi á Kópavogsvelli.

Þá eru upptaldir allir íslensku leikmennirnir sem skorað hafa hjá Þjóðverjum. Markatalan er 48-3 þeim þýsku í vil. Þó skal haft í huga að í tveimur síðustu landsleikjum þjóðanna, á EM í Finnlandi 2009 og á Algarve 2012, hafa Þjóðverjar unnið nauman 1-0 sigur.

Hafa skal í huga að sagan hefur ekki unnið einn einasta knattspyrnuleik en jafnframt ljóst að takist Íslendingum að uppskera úr leik kvöldsins yrði um sögulegt afrek að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×