Fótbolti

Margrét Lára: Þær voru bara miklu betri en við

Óskar Ófeigur Jónsson í Växjö skrifar
Þýsku stelpurnar fagna fyrsta markinu í kvöld. Margrét Lára fylgist með.
Þýsku stelpurnar fagna fyrsta markinu í kvöld. Margrét Lára fylgist með. Nordicphotos/AFP
Margrét Lára Viðarsdóttir fékk ekki úr miklu að moða í Växjö í kvöld ekki frekar en aðrir sóknarleikmenn íslenska liðsins enda íslenska liðið í varnarhlutverki allan tímann.

„Sumir leikir þróast bara svona. Við vissum það fyrir leikinn að við þyrftum að spila vel varnarlega og vera duglegar að hlaupa. Við gerðum það ágætlega á köflum. Þýskaland sýndi það bara í dag að þær eru því miður bara klassa ofar en við ennþá," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir eftir 0-3 tap á móti Þýskalandi á EM í kvöld.

„Ef við erum hreinskilin þá bjargaði Gugga okkur oft frábærlega. Hún átti stórleik en samt töpuðum við 0-3. Við héldum engum boltum, náðum aldrei að færa okkur upp völlinn almennilega. Það er erfitt því þá er maður alltaf að elta. Þær eru frábærar í móttöku og sendingu og kunna að spila fótbolta. Þær voru bara miklu betri en við," sagði Margrét Lára.

„Þýskaland var komið upp að vegg í riðlinum og urðu að vinna. Þær þýsku klikka ekki þegar þær mega ekki við því," sagði Margrét Lára.

„Staðan á mér er fín, ég bara missteig mig aðeins í lokin. Það er ekki neitt. Ég kláraði þessar 90 mínútur bara vel og var að taka spretti allar 90 mínúturnar. Ég er að komast í betra form, líður bara vel og er klár í 90 mínútur," sagði Margrét Lára.

„Þetta er þétt dagskrá og það voru einhverja sem meiddust en ég hef engar áhyggjur af því að þessir leikmenn verði ekki komnar í lag fyrir næsta leik. Það er mikilvægur leikur og það eru allir tilbúnir að gefa allt sitt í alla leiki. Það er einstakur karakter í þessum hóp og við komum til baka. Ég get lofað þér því," sagði Margrét Lára.


Tengdar fréttir

Noregur í toppsætið

Solveig Guldbrandsen reyndist hetja Noregs í 1-0 sigri á Hollendingum í B-riðli Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu í Svíþjóð í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×