Innlent

Talskona Femínistafélagsins gagnrýnir jafnréttiskafla nýs stjórnarsáttmála

Í jafnréttiskafla nýs stjórnarsáttmála kemur fram að ný ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hyggist endurmeta þær aðferðir sem notaðar hafa verið í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna með það að markmiði að bæta árangur á sviði jafnréttismála og vinna gegn launamuni kynjanna.

Steinunn Rögnvaldsdóttir, talskona Femínistafélagsins, gagnrýnir kaflann og segir hann fremur snautlegan.

„Þarna er talað um að endurmeta þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa farið í til þess að ná kynjajafnrétti, og ég les í raun úr þessu lítt dulbúinn ásetning um að afnema lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.“

Aðspurð hvort til standi að afnema kynjakvóta segir Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra svo ekki vera.

„Framsóknarmenn studdu þetta ákvæði í lögum til dæmis um hlutafélög og um það að setja ákveðið kynjahlutfall í stjórnir fyrirtækja. Við erum sjálf með ákvæði í okkar lögum þannig að ég geri ekki ráð fyrir því að það verði eitthvað sem ég muni beita mér fyrir.“

Eygló segir jafnréttisstefnuna, eins og henni er lýst í stjórnarsáttmálanum, vera jafnrétti út frá víðtækari áherslum en áður hafi þekkst. Jafnréttisstefnan sé hugsuð fyrir alla hópa, óháð stöðu og kyni.

„Eitt áherslumálið okkar verður jafnrétti. Það hefur verið eitt af mínum áherslumálum þannig að ég vil bara hvetja fulltrúa félagsins til að koma og hitta mig og fara bara í gegnum þeirra áhyggjur hvað varðar jafnréttismálin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×