Innlent

PISA prófið bara eitt af "endalausum“ könnunum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
„Í 10. bekk er maður á hæsta stigi gelgjunnar og þessi próf skipta mann engu máli en núna er leiðinlegt að sjá hvað þetta kemur illa út,“ segir Sóllilja
„Í 10. bekk er maður á hæsta stigi gelgjunnar og þessi próf skipta mann engu máli en núna er leiðinlegt að sjá hvað þetta kemur illa út,“ segir Sóllilja
Sóllilja Baltasarsdóttir var 15 ára nemandi í Varmaskóla þegar hún tók PISA prófið vorið 2012. Sóllilja er 17 ára í dag og nemandi í Verslunarskóla Íslands.

„Auðvitað voru einhverjir sem lögðu sig fram í þessu prófi en ég eins og ég upplifði þetta var enginn að pæla í því hvernig við myndum koma út úr þessu prófi,“ segir hún. „Og núna lítum við út fyrir að vera voðalega vitlaus.“

Hún segir krökkunum hafi ekki verið sagt frá tilgangi prófsins né gert grein fyrir því hvaða áhrif það hefði. „Í 10. bekk er maður á hæsta stigi gelgjunnar og þessi próf skipta mann engu máli en núna er leiðinlegt að sjá hvað þetta kemur illa út,“ segir Sóllilja.

Hún segir að þennan vetur sem prófið var tekið hafi hún og samnemendur hennar verið að fá eins og hún orðar það „endalaust af könnunum“. „Þetta voru stöðupróf og eineltiskannanir sem dæmi. Maður var ekkert alltaf að leggja sig fram við að svara og þessi PISA könnun var bara ein af mörgum könnunum sem við þurftum að svara.“

„Ég man sjálf að þegar ég var að taka próf sem skiptu engu máli þá lagði ég mig ekki jafn mikið fram,“ segir hún. „Maður varð bara að svara en aðallega vildi maður bara drífa sig heim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×