Innlent

Ungir jafnaðarmenn vilja Gunnar Braga burt

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Mynd/Stefán
Ungir jafnaðarmenn skora á Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra að segja af sér vegna ófaglegra og ólýðræðislegra vinnubragða.

Í ályktun sem sambandið sendi frá sér segir að ákvörðun núverandi ríkisstjórnar um að stöðva aðildarviðræður við Evrópusambandið var tekin án þess að leggja hana fyrir atkvæðagreiðslu á Alþingi eða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún sé í óþökk meirihluta landsmanna ef marka megi fjölmargar skoðanakannanir undanfarna mánuði, sem sýni allar að meirihluti landsmanna vilji sjá aðildarsamning og kjósa um hann í þjóðaratkvæðagreiðslu. Framsóknarflokkurinn hafi bæði fyrir og eftir kosningar talað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna.

Ungir jafnaðarmenn segja ríkisstjórnina nú ganga á bak orða sinna með orðhengilshætti og útúrsnúningi.

Sem utanríkisráðherra beri Gunnar Bragi pólitíska ábyrgð á þessari ólýðræðislegu ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Þar fyrir utan hafi hann sýnt hræsni og vanþekkingu í umfjöllun sinni um utanríkismál. Hræsnin birtist meðal annars í þeim mótsagnakennda málflutningi að segja vinnubrögð Evrópusambandsins forkastanlega í IPA styrkjamálinu, þegar það var ríkisstjórnin sem í raun afþakkaði alla frekari IPA styrki með því að stöðva viðræður og lýsa því yfir að Ísland sé ekki á leiðinni inn í Evrópusambandið.

Þá hafi Gunnar Bragi gagnrýnt Evrópusambandið fyrir lýðræðishalla, á meðan ríkisstjórnin hefur talað fyrir auknum viðskiptum og samstarfi við ríki sem seint teljast til fyrirmyndar í lýðræðismálum, eins og Kína, Rússland, Ungverjaland og Kakastan[sic].

Ungir jafnaðarmenn segja að Gunnar Bragi haldi ESB umsókn Íslands í gíslingu. Hvorki þjóð né þingi sé leyfð aðkoma að ákvörðun um umsókn, hann vill ekki draga umsóknina formlega til baka, en lýsir því ítrekað yfir að Ísland eigi ekkert erindi inn í ESB og leysir samninganefndina frá störfum.

Ungir jafnaðarmenn telja þessi vinnubrögð skaðleg fyrir trúverðugleika Íslands og skora því á Gunnar Braga Sveinsson að axla sína pólitísku ábyrgð og stíga til hliðar sem utanríkisráðherra.

Að lokum segja þau Gunnar Braga geta þá kannski notað tækifærið og farið í sína langþráðu Benidorm ferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×