Innlent

„Flettist ofan af svikamyllu stjórnarflokkanna“

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Björn Valur kallar skuldaleiðréttinguna svikamyllu.
Björn Valur kallar skuldaleiðréttinguna svikamyllu.
Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, segir í pistli á heimasíðu sinni að smám saman sé að flettast ofan af svikamyllu stjórnarflokkanna eftir því sem frá líði sýningunni í Hörpu.

Björn nefnir fjögur dæmi sem hann segir raunveruleg um mismunandi áhrif aðgerðanna eftir stöðu fólks og efnahag:

Dæmi 1:

Fjölskylda, hjón með tvö börn, skuldaði 25 m.kr. verðtryggð húsnæðislán. Hún fékk 4 milljónir niðurfelldar í 110% leiðinni á síðasta kjörtímabili og sérstakar vaxtabætur líka og fær því ekkert í aðgerðunum núna þar sem sú leiðrétting er dregin frá og er yfir 4 m.kr. hámarkinu í aðgerðunum núna. Samanlagðar mánaðartekjur þessarar fjölskyldu eru 550 þúsund krónur (bæði í kennslu) sem bendir til þess að afar ólíklegt sé að hún geti nýtt sér nokkuð af 70 milljörðunum í gegnum sérstakan viðbótarsparnað.

Dæmi 2:

Fjölskylda, hjón með tvö börn, sem á einbýlishús sem nú er metið á 90 m.kr. og skuldaði 18 m.kr. í verðtryggt húsnæðislán (sem var greitt upp 2011) fær um 3 m.kr. með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þessi fjölskylda fær svo auðlegðarskattinn felldan niður og ætti því að vera í góðu jólaskapi.

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynntu skuldaleiðréttingarnar um síðustu helgi.Mynd/Daníel
Dæmi 3:

Einstætt foreldri með eitt barn í lítilli íbúð skuldaði 14 m.kr. verðtryggt húsnæðislán, fékk 1,4 milljónir niðurfelldar í 110% leiðinni og einnig sérstakar vaxtabætur upp á 400.000 (2x200.000/hámark). Þetta foreldri fær ekkert af 80 milljörðunum og afar litlar líkur á að geta nýtt sér nokkuð af 70 milljörðunum heldur vegna lágra tekna.

Dæmi 4:

Einstæð móðir með eitt barn keypti íbúð 2006 sem hún seldi 2012, fór á leigumarkaðinn og í háskólanám. Hún fékk ekki eina einustu krónu út úr íbúðinni sem var í raun bara yfirtaka kaupandans á skuldum seljanda. Lánið stóð þá í 21 m.kr. Miðað við boðaðar aðgerðir á hún að fá sérstakt skattaafsláttarkort sem fyrnist á næstu fjórum árum. Hún hefur hins vegar engar tekjur (námsmaður) og borgar því engan skatt. Hún mun þess vegna ekki geta nýtt sér afsláttinn fyrr en að námi loknu (2016) og fær því nánast ekkert út úr aðgerðinni.

Að lokum segir Björn Valur að hann hafi grun um að sá eini sem ekki átti von á neinu sé sá sem er í dæmi 2 á meðan allir hinir bjuggust við feitum tékka - eins og þeim var lofað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×