Innlent

Aukið samstarf Íslands og Grænlands

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Gunnar Bragi ræðir við Aleqa Hammond.
Gunnar Bragi ræðir við Aleqa Hammond. mynd/Utanríkisráðuneytið
Sérstök ráðherranefnd um samhæfingu starfa ráðuneyta og stofnana í málefnum Íslands og Grænlands og skoðun á mögulegri uppbyggingu alþjóðlegrar björgunar- og viðbragðsstöðvar á Íslandi, var kynnt á fundi sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti með formanni grænlensku landsstjórnarinnar, Aleqa Hammond.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Þar segir að hagsmunir Íslendinga og Grænlendinga fari saman á mörgum sviðum. Samvinna hafi aukist á undanförnum árum. Til dæmis í heilbrigðismálum, ferðamálum og flugsamgöngum.

Utanríkisráðherrann sagði að opnum aðalræðisskrifstofu Íslands á Grænlandi væri mikilvægur liður í að efla samstarf landanna og um leið vestnorræna samvinnu Íslands, Grænlands og Færeyja. Ráðherra sagði einnig að það væri mikilvægt að utanríkisráðherrar landanna ræddu sín á milli um samstarfstækifæri og sameiginlega hagsmuni þeirra á svæðinu. Meðal annars tengt samgöngum, umhverfisógnunum, leit og björgun.

Formaður grænlensku landsstjórnarinnar sagði að ný stjórnvöld á Grænlandi legðu ríka áherslu á aukin samskipti landanna og Grænlendingar gætu nýtt sér þekkingu og reynslu Íslendinga á ýmsum sviðum. Meðal annars á sviði björgunarmála, fiskveiða og orkumála. Þá vær framlag íslenskra fyrirtækja til uppbyggingar á sviði sjálfbærrar orkunýtingar mikilvægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×